Orkumálinn 2024

Ásgeir Hvítaskáld frumsýnir myndina Naphorn á sunnudaginn

Sunnudaginn næstkomandi frumsýnir Ásgeir Hvítaskáld, rithöfundur, heimildamynd um hellinn í Naphorni. Myndin verður sýnd í Tehúsinu á Egilsstöðum klukkan 20:00. Myndin fjallar um leit hans að hellinum sem hann fjallar um í bók sinni Morðið í Naphorni. Bókin er skáldsaga byggð á sannsögulegum atburðum.

Ásgeir Hvítaskáld segir að við skrif bókarinnar hafi hann rannsakað þessa þrjá stráka sem sagan segir frá og leið þeirra upp í hellinn. „Ég rakti leið þeirra upp fjallið en fann aldrei hellinn, svo var það gömul kona á Breiðdalsvík sem benti mér á hann, en hann sést frá þjóðveginum á stuttum kafla,” segir Ásgeir. Ásgeir sendi dróna upp fjallið til að mynda hellinn og gerði litla heimildarmynd um leitina að hellinum.

„Þetta er stutt mynd, um 16 mínútur, en þeim mun merkilegri og svo verða umræður eftir á,” segir Ásgeir. Aðgangur er ókeypis og Ásgeir hvetur sérstaklega fjallgöngumenn til að koma. Hann segir að næsta sumar ætli nokkrir göngugarpar að fara þarna upp og skoða hellinn. „Það eru nokkrir búnir að skrá sig á lista til að fara þarna upp sem verður spennandi. Það hafa menn hringt í mig og segjast vilja fara þarna upp. Leiðin er flókin svo ég þarf að leiðbeina fólki þarna upp en leiðin er líka sýnd í myndinni.

Myndin tengist sögunni í bókinni Morðið í Naphorni. „Það verður smá upplestur úr bókinni í myndinni en þetta er fyrst og fremst heimildamynd um leitina að hellinum,” segir Ásgeir.

Ásgeir segir að það væri gaman ef hellirinn yrði skráður aftur sem útilegumannahellir og sett upp merki á þjóðveginum sem sýnir hvar er hægt að sjá hann. „Þetta er stórmerkilegur hellir lengst uppi í fjallinu í um 420 metra hæð," segir Ásgeir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.