„Amma mín kenndi mér hógværðina“

Arnaldur Máni Finnsson er í yfirheyrslu vikunnar, en hann stýrir höfundasmiðjunum Okkar eigin, en þær halda áfram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum um helgina. 

„Það er gaman að fá svo reynslumikinn mann í þessum geira hingað austur og ekki skemmir fyrir að geta skellt sér á Gísla á Uppsölum um kvöldið,en það er Elfar Logi einleikjameistari Íslands sem verður með smiðjuna um helgina.

Við höfum verið að leita leiða til að halda viðburði á fleiri stöðum en bara í Sviðslistamiðstöðinni í Sláturhúsinu, en það fer mikið eftir því hvort að það sé hópur fyrir hendi á hverjum stað sem vill leika með okkur. Höfundasmiðjurnar verða starfræktar næsta vetur áfram og eru opnar áhugasömum af öllu Austurlandi. Auk laugardagsins eigum við eftir að hittast í maí og skipuleggja næsta haust, og þá væri gaman að fá nýjar hugmyndir frá þeim sem eru að sinna leiklistinni hér eystra. Við ætlum á Norðfjörð, Stöðvarfjörð, Vopnafjörð og Djúpavog ef við höfum tækifæri til, áhuga og samstarfsaðila.

Smiðjan stendur milli klukkan 15:00 og 17:00 á morgun og er öllum opin. Áhugasömum er bent á að skrá sig til leiks gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Elfar Logi sýnir einleik sinn um Gísla á Uppsölum í Sláturhúsinu á laugardagskvöld klukkan 20:00 og á Breiðdalsvík á sunnudaginn klukkan 16:00.Fullt nafn: Arnaldur Máni Finnsson.

Aldur: 39 ára.

Starf: Ritstjóri Austurlands og verkefnastjóri.

Maki: Karna Sigurðardóttir, hönnuður og kvikmyndagerðarkona úr Fellabæ.

Börn: Margrét Elíanna (2016) Þorfinnur Sigurörn (2015) og Jóakim Uni (2007).

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Fire and Brimstone með Link Wray.

Tæknibúnaður? Mismunandi eftir dögum; Canon og Iphone fimmur en PC-garmur í vinnu, almennt. En svo eru líka betri dagar á Pro-inum með þrjá skjái og soundsystem. Ég kemst af með lítið.

Hvað er í buxnavösunum? Vasahnífur, kveikjari og veski. Allt sem þarf - eitt sinn skáti ávallt...

Vínyll eða geisladiskur? Á meiri vínyl en geisladiska en Spotify er þó mest notað.

Mesta undur veraldar? Ástin.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að hjálpa fólki að fyrirgefa sjálfu sér.

Besta bók sem þú hefur lesið? Djúpið eftir Steinar Sigurjónsson.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er víðsýnn og umburðarlyndur við aðra en gagnrýninn á sjálfan mig.

Hver er þinn helsti ókostur? Fyrir utan það að ég flæki hlutina oft of mikið fyrir sjálfum mér – og flóknara er ekki endilega betra – þá er ég bæði of sjálfsgagnrýninn og með athyglisbrest. Var það búið að koma fram?

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Runa, innan við nýju höfnina á Borgarfirði.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Sinnep, mjólk og ætiþistla

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Mjög léttsteiktar gellur í smjöri með sítrónu.

Settir þú þér áramótaheit? Já, að gefa mér tíma til að sinna andlegu málunum betur. Það er enn í vinnslu.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Vorið, því þannig byrjar einhvernveginn hvert ár; ég er fæddur að vori til og þá taka oftast ný verkefni við. Það er líka sveitin í sálinni; sauðburður og hækkandi sól, hugurinn fer á flug útúr rútínu. En samt í að jarðtengja og fagna hringrás.

Hvað eldar þú oft í viku? Eh. Svona átta til átján sinnum. Örugglega nær átján.

Hver eru þín helstu áhugamál? Fyrir utan það að ala upp börnin mín og elska konuna mína þá væri það að reyna efla skapandi hugsun, vinna að menningarmálum á Austurlandi og verða betri guðfræðingur. Ég málaði mikið í gamla daga og tek örugglega aftur til við það í ellinni.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ætli það væri ekki skáldið og munkurinn Thomas Merton, en hann hafði mikil áhrif á þá þróun sem kalla má samræðu trúarbragðanna á okkar tímum. Hann var merkilegur maður og hugsuður, og áhrif hans á mannkynssöguna verða vonandi meiri eftir því sem frá líður. Frans páfi hefur t.d. verið að hvetja kristið fólk í Ameríku til að kynna sér Merton betur. Þegar Trump verður búinn að ganga fram af þjóðinni allri nógu lengi, þá vona ég kristni hluti hennar finni sér fyrirmyndir á hans kaliberi.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Kaupfélagsstjóri eða skáld? Ég er enn að bræða með mér hver útkoman úr þessum tveim pólum getur orðið.

Fyrsta æskuminning? Að stinga af eftir að hafa orðið fyrir bíl í Túngötunni á Ísafirði. Held að allir hafi verið svo hræddir að ég hafi ákveðið að koma mér til langömmu minnar Kristínar, sem var bæði pollróleg og trúuð. Það var einhver engill sem þrýsti mér svo fast oní götuna að ég lenti bara undir bílnum sem náði loks að stöðva þar sem ég lá svona við afturöxulinn. Það var ekki í síðasta sinnið sem ég hef verið leiddur. Ég hugsa til englanna á hverju kvöldi með börnunum mínum.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Yfirvegun og einurð. Og að fólk bítti ekki á hugsjónum fyrir stundarhagsmuni. Og að hrós sé grundvallað í innri friði. Æ, ég kann margt að meta.

Draumastaður í heiminum? Ég reyni nú að lifa í núinu þannig, svo hvar sem konan mín og börnin eru samankomin þá er ég nokkuð sáttur. Svo það er fólkið fremur en staðurinn.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Það er engin ein, ég reyni að draga lærdóm af reynslu margra. En ýmsir góðir trúarleiðtogar hafa fetað brautina. Og amma mín kenndi mér hógværðina.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Þá væri hann öðruvísi.

Duldir hæfileikar? Neh. Þetta er allt uppá borðum.

Mesta afrek? Að taka á móti dóttur minni síðasta sumar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar