Alþjóðlegar gæðamyndir og nýlegar íslenskar í kvikmyndaklúbbi Sláturhússins

Kvikmyndaklúbbur Sláturhússins á Egilsstöðum hefur göngu sína í kvöld þegar ný íslensk kvikmynd, Sumarbörn, verður forsýnd á sama tíma þar og í Reykjavík. Sláturhússtjórinn segir að Austfirðingum verði boðið upp á alþjóðlegar gæðamyndir reglulega þar í vetur.

„Þetta er fyrsta fjölskyldumyndin sem gerð er á Íslandi í áraraðir,“ segir Kristín Amalía Atladóttir, framkvæmdastjóri Sláturhússins og fyrrverandi kvikmyndaframleiðandi.

Sumarbörn er fyrsta mynd Guðrúnar Ragnarsdóttur í fullri lengd en hún hefur fengið viðurkenningar fyrir stuttmyndir sínar. Meðal aðalleikara eru Brynhildur Guðjónsdóttir, Hera Hilmarsdóttir og Kristjana Thors.

Myndin segir frá systkinunum Eydísi og Kára eru send til sumardvalar á afskekkt barnaheimili vegna heimiliserfiðleika og fátæktar. Börnin trúa því statt og stöðugt að dvölin verði stutt, en biðin veldur þeim síendurteknum vonbrigðum. Dagarnir líða, en Eydís með sinn sterka lífsvilja og lífsgleði yfirstígur hverja hindrunina eftir aðra með ráðsnilld og dugnaði og umhyggju fyrir Kára bróður sínum.

Hátíðarsýningar myndarinnar verða klukkan 20:00 í kvöld, annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Egilsstöðum. Syðra fer hún í almennar sýningar strax á morgun en eystra er stefnt að því að sýna hana tvisvar í viku, á miðvikudögum og sunnudögum frá og með næstu viku.

Nýlegar íslenskar myndir

Með sýningunni í kvöld hefur jafnframt göngu sína Kvikmyndaklúbbur Sláturhússins en í honum verða sýndar nýjar áhugaverðar myndir annað hvern fimmtudag. „Við verðum með alþjóðlegar gæðamyndir og nýlegar íslenskar myndir í samstarfi við Bíó Paradís,“ segir Kristín.

Hún segir starf klúbbsins í mótun, hugsanlegt sé að setja upp þema í myndavali eða standa fyrir fræðslu svo sem kennslu í kvikmyndalæsi eða kvikmyndasögu ef áhugi er fyrri hendi.

Ekki stórmyndirnar

Ekki verður herjað á nýjustu vinsældamyndirnar, meðal annars því búnaður Sláturhússins ræður ekki við það snið sem myndirnar eru sýndar á í kvikmyndahúsum.

Aðrar reglur gilda líka um stofnanir eins og Sláturhúsið sem rekið er af sveitarfélaginu eða Paradís sem studd er af Reykjavíkurborg. „Það er minni áhersla á að myndirnar standi undir sér en það hvílir skylda á þessum aðilum. Þetta snýst um kvikmyndauppeldi og menningarlega fjölbreytni. Markaðurinn ber það ekki. Það er ekki hlutverk þessa opinberu aðila að vera með vinsælu stórmyndirnar.“

Hún hefur samt trú á að áhugi sé fyrir sýningum á borð þær sem klúbburinn mun standa fyrir eystra. „Við höldum að það sé nægjanlegur grunnur til að fara af stað og ef við höldum út þá bætast fleiri í.

Ég sé alveg forsendur fyrir að vera hér með almennar sýningar, að reka lítið kvikmyndahús með 50 manna sal ef þær fyrirætlanir sem eru um breytingar á húsinu fara í framkvæmd. Með þeim sal væru hægt að búa til jafnvægi með að blanda stórmyndunum saman við.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.