Orkumálinn 2024

Alltaf látið hverjum degi nægja sína þjáningu

Eygló Aðalsteinsdóttir hefur starfað við kennslu á Fáskrúðsfirði í rúm 40 ár, undir lokin sem skólastjóri. Hún stefndi þó ekkert á þá braut í byrjun.

„Ég kem hingað sem nýstúdent 1973 og ætlaði að ráða mig í eitt ár því það var alltaf mannekla á þeim tímum. Langaði að prófa þetta en ætlaði mér hvorki að verða kennari og þaðan af síður skólastjóri nokkurn tímann.

Það var svo ári síðar en það hefst tilraun með að reka gagnfræðaskóla hér í stað þess að senda nemendur annað í það nám. Húsakosturinn var ekki merkilegur því ég kenndi gagnfræðanemunum í gamla sturtuklefanum út frá íþróttahúsinu.

Þarna voru átta nemendur sem öll voru aðeins fjórum árum yngri en ég og þar á meðal systir mín. Ég man enn að bæði sturturnar og sturtuhengið voru enn á sínum stað meðan á kennslunni stóð,“ segir Eygló í viðtali í Austurglugga vikunnar.

Hún var kvödd með virktum þegar hún sleit skólanum í síðasta sinn í vor. Skólarnir eru nú byrjaðir aftur en Eygló segist hlakka til að nýta lausar stundir.

„Í þessu starfi hefur maður venjulega látið hverjum degi nægja sína þjáningu og svo ætlað að hugsa um hitt á eftir. Starfið vissulega bæði gefandi og ánægjulegt flestum stundum og vinnustaðurinn alltaf fullur af lífi en áreitið á skólastjórnendur er orðið töluvert mikið og fer vaxandi ár frá ári. Það eru orðnar svo miklar kröfur í samfélaginu.

Allir aðilar sem að skólunum standa eru að reyna að uppfylla kröfur allra og að standa sig. Menntamálastofnun, Mentor og sveitarfélögin vilja öll hafa hönd á bagga með hitt og þetta. Eftir að sveitarfélögin tóku við þá fór af stað nokkurs konar samkeppni um hver væri að reka bestu skólana og af þessu öllu leiðir að við erum að fá næstum endalausar fyrirspurnir frá sveitarfélaginu,“ segir hún meðal annars.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.