Alaustfirsk rithöfundalest: Til marks um að höfundar af svæðinu séu að sækja í sig veðrið

Árleg upplestrarferð rithöfunda um Austurland, undir merkjum Rithöfundalest(arinnar) hefst á morgun. Að þessu sinni eru allir höfundarnir frá Austurlandi, annað hvort búsettir þar eða með rætur sínar á svæðinu.

„Að þetta séu allt Austfirðingar er til marks um að austfirskir rithöfundar séu að sækja í sig veðrið og ritlistin að styrkjast á Austurlandi.

Þar sem við sáum möguleika á þessu þótti okkur glæsilegra að hafa hana alfarið með austfirskum höfundum frekar en fá „stjörnuhöfunda“ enda eru „stjörnuhöfundar“ í þessum hópi,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, sem heldur utan um lestina.

Kjarna lestarinnar mynda fjórmenningarnir: Benný Sif Ísleifsdóttir með skáldsöguna Gratíana sem er framhald Hansdætra; Jónas Reynir Gunnarsson með skáldsöguna Kákasus-gerillinn; Smári Geirsson með stórvirkið Sögu Fáskrúðsfjarðar; og Ragnar Ingi Aðalsteinsson með þrjú verk, Líkið er fundið - sögur af Jökuldal, kvæðasafn systkinanna frá Heiðarseli og bók um Skáld-Rósu.

Aðrir höfundar sem stíga um borð í lestina á mismunandi stöðum eru: Unnur Sveinsdóttir með barnabókina Skotti og sáttmálinn; Ásgeir Hvítaskáld með skáldsögu byggða á sönnum atburðum, Morðið í Naphorni; Jón Pálsson með glæpasöguna Skaðræði; Jón Knútur Ásmundsson með ljóðabókina Stím; Anna Karen Marinósdóttir með ljóðabókina Kannski verður allt í lagi; og Björn Ingvarsson með þýðingar á ljóðum Inúíta.

Mikilvægt fyrir austfirska höfunda

Um þrjátíu ára hefð er komin á að höfundar bóka í jólabókaflóðinu ferðist saman um Austurland og lesi upp á ýmsum stöðum. „Þetta er eitt fárra svona verkefna á landinu sem hafa haldist og virðist frekar vera að breiða úr sér. Viðkomustöðunum fjölgar og svo bætist streymið við. Þannig eykur lestin sýnileika bókmenntanna,“ segir Skúli.

Hann segir lestina skipta máli miklu máli fyrir austfirska höfunda og menningu. „Eitt af því sem við höfum alltaf hugsað um er að hampa austfirskum höfundum og hafa þá með. Þannig styrkjast tengsl þeirra við bókmenntaheiminn. Að sitja í bíl eða taka þátt í upplestri með öðrum höfundum getur haft heilmikið að segja fyrir einyrkjahöfunda á landsbyggðinni.“

Fyrsta upplesturinn verður á Uss bistro í Kaupvangi, Vopnafirði klukkan 20:30 á morgun fimmtudag og sá næsti í Skaftfelli, Seyðisfirði á föstudag. Tveir upplestrar verða á laugardag, sá fyrri í Safnahúsinu í Neskaupstað klukkan 14:00 og sá seinni í Löngubúð á Djúpavogi klukkan 20:00.

Síðasti viðkomustaðurinn er Skriðuklaustur klukkan 13:30 á sunnudag. Streymt verður þaðan á vef Gunnarsstofnunar. Þar verða einnig kynntar fleiri austfirskar bækur.

Rithöfundalestin er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar, Skaftfells, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarsviðs Múlaþings og menningar- og atvinnumálanefndar Vopnafjarðarhrepps.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.