Orkumálinn 2024

Afmæli, ljósleiðari og byggðastefna

Sigfús Vilhjálmsson á Brekku í Mjóafirði varð 75 ára 28. nóvember. Í tilefni dagsins fór hann á bingó á Egilsstöðum, þar sem hann hreppti vænan vinning. Ekki er sjálfgefið að fært sé á milli Egilsstaða og Brekku á þessum árstíma og ýmsir hafa á orði að vegurinn sé oftast lokaður frá því í sláturtíð og fram á sauðburð.


„Það er langt frá því að vera einsdæmi að vegurinn sé opinn um þetta leyti,“ segir Sigfús. „Það fer eftir veðráttunni. Í fyrra var fært á milli á þrettándanum. En ef snjóar eitthvað að ráði þá er hann fljótur að verða ófær. Stundum verður hann ófær snemma vetrar vegna snjóa, en svo kemur kannski góð tíð á eftir og þá væri auðvelt að opna veginn aftur. En samkvæmt lögum þá má Vegagerðin ekki ryðja hann nema einu sinni á hausti og á vorin má ekki byrja að ryðja fyrr en eftir 20. mars, að mig minnir, og þá bara ef veðurútlit er gott til lengri tíma.“

Ljósleiðarinn tengdur
Í Mjóafirði eru búsettar ellefu manneskjur, níu í Brekkuþorpinu og á Dalatanga býr Marzibil Erlendsdóttir ásamt dóttur sinni. En hvað skyldi það vera sem heldur í fólk á þessum einangraða stað?

Sigfús slær á létta strengi þegar spurningin er borin fram og segir: „Jónas Árnason, útvarpsmaður, sagði einhverntíma eitthvað á þessa leið: Í Mjóafirði býr Vilhjálmur Hjálmarsson og nokkrar þrjóskar manneskjur sem hafa ákveðið að bíða dauða síns þar. Kannski var þetta rétt hjá honum. Ég skal ekki segja. Mjóifjörður hefur ekki upp á margt að bjóða, fyrir utan náttúrufegurð og kyrrð, en hér hefur fólk komist af býsna lengi við landbúnað og sjávarútveg í smáum stíl. Við sem búum hér viljum hvergi annars staðar vera, en hvort það er svo næg ástæða til að réttlæta byggðina er annað mál. En nú er loksins búið að tengja ljósleiðarann og hugsanlega eru einhverjir, sem geta unnið vinnuna sína á netinu, tilbúnir að flytja hingað, hver veit.“

Sigfús segir að það megi strax finna mun á farsímasambandinu með tilkomu ljósleiðarans, en gsm sambandið hafi þó alls ekki verið afleitt fyrir.
„Það var yfirleitt gott, en átti til að detta út, jafnvel tvo til þrjá daga og þá fór sjónvarpið stundum líka. En það er betra samband núna, ekki spurning. Það er bara óskandi að þetta haldi. Ljósleiðarinn liggur ofanjarðar á kafla yfir klettabelti í fjallinu og nú á eftir að koma í ljós hvað hann þolir.“

Þegar kvótinn var seldur

„Það er alltaf verið að tala um að það verði að halda landinu öllu í byggð, en ég veit ekki hvað er mikil alvara í því. Forsenda fyrir búsetu er atvinna, að fólk hafi tekjur. Fólk með börn sest ekki að á stöðum þar sem ekki er atvinna og vöxtur. Verkefni eins og Brothættar byggðir eru ágæt, en það hefur litla þýðingu að opna verslanir og veitingastaði ef enginn hefur peninga til að versla þar.

Þegar kvótinn var seldur frá þessum litlu stöðum hér á Austfjörðum þá voru forsendur fyrir búsetu svo gott sem brostnar. Það er einfaldlega staðreyndin sem blasir við. Og forsendan fyrir góðu mannlífi á hverjum stað er að ungt fólk vilji búa þar og ala upp sín börn.

Það eru engin börn á skólaaldri hér núna. Tvær dætur mínar fluttu í Egilsstaði ásamt fjölskyldum sínum fyrir tveimur árum. Ég skil þær vel.“

Vorkenni engum að aka Fagradalinn

„En það er annað sem ég skil ekki,“ segir Sigfús, „og það er að menn skuli ætla að velja þann kostinn að byrja á jarðgöngum undir Fjarðarheiði. Rökrétt framhald af Norðfjarðargöngum hefði verið að halda áfram þaðan með jarðgöng í Mjóafjörð og þaðan í Seyðisfjörð og hringtengja þannig saman þessar byggðir. Það væri raunveruleg byggðastefna og besta niðurstaðan fyrir alla, ekki síst fyrir Seyðfirðinga. Fólk ætti að hugsa um þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem slíkt hefði í för með sér. Ég vorkenni ekki Seyðfirðingum að aka Fagradal ef svo ber undir, ekki frekar en Norðfirðingum, Eskfirðingum, Reyðfirðingum, Fáskrúðfirðingum, Stöðfirðingum og jafnvel Breiðdælingum. Enda Fjarðarheiðin oftast fær,“ segir Sigfús Vilhjálmsson.

Mynd: Sigfús með barnabörnum sínum Hafsteini Smára Guðjónssyni og Margréti Sigfúsdóttur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.