Æfingin kemur úr sólarkaffi Leiknis

Sigrún Steindóttir frá Dölum í Fáskrúðsfirði fór í dag með sigur af hólmi í keppni í pönnukökubakstri á Landsmóti UMFÍ fyrir 50 ára og eldri sem fram fer í Neskaupstað um helgina.

„Ég nálgaðist keppnina eins og ég væri að baka í eldhúsinu heima hjá mér, nema ég var aðeins að flýta mér,“ segir Sigrún.

„Ég er búin að baka ofan í marga um dagana og hef þróað tækni mína í gegnum árin. Við skiptumst á að baka fyrir sólarkaffi Leiknis en ég hef aldrei keppt í pönnukökubakstri.“

Að ýmsu er að hyggja í keppni í pönnukökubakstri. Keppendur hafa 20 mínútur til að gera deigið og baka 20 pönnukökur. Tíu á að skila upprúlluðum með sykru og tíu brotnum horn í horn.

Þá taka dómarar tillit til umgengi á vinnusvæði meðan bakað er, frágangi á svæðinu og á pönnukökunum á fati, vinnubrögðum, útliti pönnukakanna þannig þær séu svipaðar í útliti og ekki brenndar og síðast, en ekki síst, bragðgæðum.

„Þetta er ekki bara hraðinn. Hitinn á pönnunni hefur líka mikið að segja. Við vorum með ágætar hellur hér og frábæra aðstöðu,“ segir Sigrún.

Fáskrúðsfirðingar voru sigursælir í pönnukökubakstrinum þar sem Ingigerður Jónsdóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði fékk bronsverðlaun. Í öðru sæti varð Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir frá Selfossi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.