Að Austan í loftið aftur með nýrri áhöfn

Þáttaröðin „Að austan“ á N4 fer á nýjan leik í loftið á kvöld. Þau Steinunn Steinþórsdóttir, Eyrún Hrefna Helgadóttir og Dagur Skírnir Óðinsson sjá um dagskrárgerðina en þau eru öll búsett fyrir austan.

„Ég er fyrst og fremst þakklát öllum þeim sem koma að þessu verkefni, ekki síst sveitarfélögunum á Austurlandi, íbúum og fyrirækjum sem hafa alltaf staðið þétt við bakið á okkur á undanförnum árum,“ segir María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4 á Akureyri.

Vill efla fjölmiðlun á landsbyggðunum

„HS Tókatækni sér um tæknilegu hliðina, þannig að við getum sagt með sanni að heimafólk sé við stjórnvölinn og þannig viljum við hafa hlutina. Okkar hugmyndafræði gengur út á að efla fjölmiðlun á landsbyggðunum, enda er heimafólkið best til þess fallið að ræða um sín mál, nóg er nú af útibúunum.

Í þessum fyrsta þætti verður rætt við nokkra unga knattspyrnuleikmenn um sumarið framundan, farið í heimsókn á Kaffi Hamar á Breiðdalsvík, komið við á Vopnafirði, litið á vinberjarækt á Fremri Mýri og farið á rúntinn með austfirska ferðaþjónustufyrirtækinu Tanna Travel.

Fyrsti þátturinn er sem sagt fjölbreyttur og slær tóninn fyrir næstu þáttum í sumar. Ég hlakka til að fylgjast með þessu bjartsýna og þróttmikla fjölmiðlafólki okkar fyrir austan.“

Landsbyggðirnar hafa margt fram að færa

María Björk segir að þættirnir „Að austan“ hafi notið mikilla vinsælda á undanförnum árum. N4 er eina sjónvarpsstöðin sem er með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins.

„Dagskráin ber þess líka merki. Hjarta okkar slær með landsbyggðunum og við segjum frá þessari staðreynd eins hátt og skýrt og kostur er. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki og ég tel að vönduð dagskrárgerð geti hæglega verið liður í því að skapa sátt og umburðaryndi meðal landsmanna.

Íbúar landsbyggðanna hafa margt fram að færa og þessi austfirska þáttaröð er liður í þeim efnum. Það er síður en svo sjálfgefið að svona verkefni verði að veruleika og einmitt þess vegna er svo skemmtilegt og gefandi að koma að þessari vinnu,“ segir María Björk.

Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20:00 í kvöld.

Þau Steinunn Steinþórsdóttir, Eyrún Hrefna Helgadóttir og Dagur Skírnir Óðinsson sjá um dagskrárgerðina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar