Að sjá hið ósýnilega

„Æskuvinkona mín, Sunna Sigfúsdóttir, er ein þeirra kvenna sem segja sögu sína í myndinni. Hún er hæfileikarík og fluggáfuð en þegar ég var búin að fylgjast með hrakförum hennar á vinnumarkaði og einkalífinu, sem og lesa bókina hennar „CV of a Martian“ fór ég að spá í að kannski væri hún á einhverfurófi og sagði það við hana. Sunna segir svo frá rest í myndinni,” segir Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, félagsmálastjóri í Fjarðabyggð um heimildamyndina Að sjá hið ósýnilega sem sýnd verður á Eskifirði annað kvöld.

Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar í samstarfi við Einhverfusamtökin býður íbúum Fjarðabyggðar og nágrannasveitarfélögum uppá sérstaka fræðslusýningu á heimildamyndinni Að sjá hið ósýnilega. Myndin fjallar um um konur á einhverfurófi, líf þeirra og reynslu.

Að lokinni sýningu verða umræður. Meðal gesta verða Sunna Sigfúsdóttir, sú sem nefnd er í inngangi, sem og Laufey Gunnarsdóttir einhverfuráðgjafi.


Markvisst unnið að vitundarvakningu
Aðspurð að því hvort samfélagið sé nægilega upplýst um einhverfu segir Helga Elísabet; „Markvisst hefur verið unnið að vitundarvakningu um einhverfu þannig að ég held að fólk viti mun meira um málið nú en áður, til dæmis dettur engum í hug lengur að börn verði einhverf af því að þau eigi kaldlynda móður. Sem betur fer eru líka mjög fáir sem halda að bólusetningar valdi einhverfu. En ég held þó að við séum ennþá að vinna okkur út úr staðalmyndinni um einhverfu, það er hvað við sjáum fyrir okkur þegar við hugsum um einhvern sem er einhverfur. Málið er að það eru engir tveir eins og ég held að það eigi jafnvel sérstaklega við um einhverft fólk.”

Helga Elísabet segir að æskilegt sé að horfa á einhverfu sem breytileika. „Rétt eins og sumir eru með skrokk til að verða langhlauparar eða kúluvarparar þá er einhverft fólk með heila sem hefur ákveðna eiginleika sem eru eftirsóknarverðir. En til þess að manneskja geti nýtt hæfileika sína þarf hún að vera í umhverfi sem styður við hana. Það á auðvitað við um okkur öll, en einhverft fólk getur verið sérstaklega viðkvæmt þegar kemur að álagi, óskipulagi, óskýrum skilaboðum og alls kyns öðru áreiti.”

Aðgangseyrir á myndina er enginn, en tekið verður við frjálsum framlögum til að styrkja einhverfuráðgjöf og fræðslu á svæðinu. Ef þú vilt tryggja þér sæti þarf að staðfesta komu þína hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.