Orkumálinn 2024

„About fucking time að spila fyrir áhorfendur“

Rokkhljómsveitin Dimma heldur útgáfutónleika á Egilsstöðum á laugardag. Söngvari sveitarinnar fagnar því að á ný sé hægt að halda tónleika fyrir svo að segja fullu húsi.

„Ég sletti og blóta um leið þegar ég segi að þetta sé „about fucking time“ að geta haldið tónleika.

Það er hressandi að sjá fólk og finna fyrir orkunni sem myndast á tónleikum. Hún verður ekki til í streymi, hólfaskiptum eða hömlum. Það þarf að gera þetta hömlulaust,“ segir Stefán Jakobsson, söngvari Dimmu.

Dimma hefur um árabil verið ein vinsælasta rokkhljómsveit landsins og sendi í júní frá sér sína sjöttu hljóðversplötu sem ber heitið Þögn. Hún verður flutt í heild sinni fyrir hlé í Valaskjálf á laugardagskvöld en eftir hlé verður sveitin með brot af því besta úr safni sínu.

„Platan hafði verið tilbúin í nokkurn tíma en við biðum alltaf eftir rétta augnablikinu til að gefa hana út. Svo ákváðum við bara að senda hana frá okkur og finna svo út hvenær við gætum haldið útgáfutónleika,“ segir Stefán.

Reyndar er kannski réttara að tala um útgáfutónleikaröð því sveitin spilaði á Græna hattinum á Akureyri um síðustu helgi og verður í Eldborgarsal Hörpu eftir viku. Kannski er ögn sérstakt að hljómsveitir byrji á að túra landið til að kynna plötur frekar en byrja í borginni, en það er ekki nýtt fyrir Dimmu.

„Við höfum prufað hvort tveggja og finnst þetta ágætt. Það er sjaldgæft að spila í jafn stórum sal og í Hörpu. Því er gott að geta hrist úr sér mesta hrollinn á stöðum og stærðum sem maður þekkir. Síðan hefur þetta líka raðast svona út af faraldrinum,“ útskýrir Stefán.

Aðaltónleikarnir verða klukkan 21:00 en fyrr um daginn, eða klukkan 16:00, verða tónleikar ætlaðir sextán ára og yngri einnig í Valaskjálf. Frítt er inn á þá enda tengjast þeir bæjarhátíðinni Ormsteiti, sem annað árið í röð er ekki hægt að halda í hefðbundinni mynd.

„Í sjálfu sér nálgumst við tónleikana eins, nema við spilum aðeins lægra. Við mælum hljóðstyrkinn. Annars lesum við í salinn í hvert skipti. Við spilum í um 45 mínútur og bjóðum upp á myndatökur, áritanir og spjall eftir tónleikana. Við höfum haldið svona tónleika í nokkur ár og gefum okkur alltaf fínan tíma með krökkunum. Okkur liggur ekki á þegar við erum komnir á staðinn,“ segir Stefán.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.