„Á tæpri viku er búið að baka ansi margar sandkökur í nýja kofanum“

„Þeim finnst þetta æðislegt og leika sér mikið bæði i kofanum og sandinum, bera í okkur sandkökur og mjólk allan liðlangan daginn,“ segir Anna Sigrún Benediktsdóttir á Reyðarfirði, en fjölskyldan nýtti trjáboli úr garðinum og fleira afgangsefni til kofasmíði fyrir börnin.


„Við keyptum þetta hús fyrir tveimur og hálfu ári og erum búin að vera að gera það upp hægt og rólega, bæði að innan og utan,“ segir Anna Sigrún og bætir því við að þau hafi einnig tekið garðinn í gegn í leiðinni.

„Í því ferli þurfti að fella nokkur tré og grisja garðinn. Við ákváðum strax að við myndum nýta trjábolina í eitthvað skemmtilegt garðverkefni, hvort sem væri til þess að smíða húsgögn eða kofa, en bara þegar tími gæfist í það.“

Anna Sigrún segir að maðurinn sinn, Gunnar Lárus Karlsson, eigi allan heiðurinn að vinnunni. „Hann er líka smiður en hefur ekki unnið sem slíkur í sex ár og þykir ótrúlega gaman að fá svona verkefni til að dunda við. Við vorum annars með voða svipaðar hugmyndir um hvernig við vildum hafa þetta og alveg sammála um að það ætti að vera auðvelt að bera sandinn inn og útúr kofanum til að nota hann meira en bara í sandkassanum. Og vittu til, á tæpri viku er búið að baka ansi margar sandkökur í nýja kofanum svo börnin sáu greinilega sömu tækifæri þar og við,“ segir Anna Sigrún, en sandkassinn liggur samhliða kofanum.

„Það er svo gaman að eiga einhver svona skemmtilegri verkefni inn á milli skylduverkanna, en við ættum til dæmis að vera byrjuð að klæða húsið að utan núna en það beið á meðan þetta var klárað, enda fínt að hafa stað fyrir börnin að leika á meðan við erum að brasa úti líka.

Hönnunin og smíðin tók aðeins nokkur kvöld en veðrið lék við okkur og flýtti fyrir verkinu. Börnunum, sem aðeins eru tæplega þriggja ára gömul, þótti ótrúlega gaman að fylgjast með framkvæmdunum og fengu að hjálpa til þar sem það var hægt, til dæmis að fylla sandkassann,“ segir Anna Sigrún.

Börnin alsæl með kofann
Anna Sigrún segir kofann mjög vel nýttan. „Börnin eru bara úti ef þau eru ekki í leikskólanum eða sofandi og það eru eru engar ýkjur. Þau eru svo með aðgang að smá vatni í litlum tanki svo það sé nú aðeins meira fútt í leiknum, það er bara gott að við eigum bæði gott baðkar og þvottavél sem virkar.“

Gunni hefði átt að verða uppfinningamaður
Anna Sigrún segir þau hjónin nokkuð nýtin á hluti og efni, samanber trjábolina. „Þeir sem þekkja Gunna vita líka að hann er ótrúlega hugmyndaríkur, ég hef oft sagt að hann hefði átt að verða uppfinningamaður.

Við höfum bæði gaman af að nota gamla hluti í bland við nýja. Sem dæmi um það nýtnina þá passaði gamla borðstofuborðið okkar ekki inn í þetta hús þegar við keyptum svo við ákváðum að selja það. Ég var svo komin með kaupanda þegar Gunni stoppaði mig og sagðist vera kominn með hugmynd fyrir viðinn úr borðinu, en það var úr fallegri gegnheilli eik, en við sáum nefnilega fram á að hafa bara lítið pláss fyrir eldhúsborð svo það þyrfti að pæla vel í hverjum sentimetra. Gunni endaði með að smíða passlegt eldhúsborð úr gamla borðstofuborðinu og bætti svo við set bekk við borðið sem nýtist líka sem geymsla, sem einnig er smíðaður úr borðinu.“

Anna Sigrún segir þau nánast ekki hafa keypt neitt efni sérstaklega fyrir kofasmíðina. „Við nýttum afgangstimbur og svo pallettur sem okkur áskotnuðust. Gólfefnið í kofanum er líka gamalt plastparket sem við rifum af eldhúsinu þegar við fluttum inn sem og gluggi sem við tókum úr borðstofunni þegar við settum hurð út á pall.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.