Á mótorhjólum um landið gegn sjálfsvígum

Mótorhjólaklúbburinn ToyRun ferðast þessa dagana um landið til að vekja athygli á starfi Píeta, samtaka gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Félagar úr klúbbnum koma við á Austurlandi á föstudag og laugardag.

„Þetta eru mótorhjólastrákar með risastórt hjarta sem við köllum ísbrjótana okkar, því þeir ferðast um landið merktir Píeta og ToyRun og koma við á ýmsum stöðum,“ segir Benedikt Þór Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Píeta-samtökunum.

Klúbburinn var stofnaður á Reykjanesi fyrir sjö árum og er góðferðarfélag sem á hverju ári býr til barmmerki með ToyRun-merkinu. Klúbburinn hefur safnað fyrir ýmis félög á árlegum hringferðum í gegnum tíðina en undanfarin ár einbeitt sér að Píeta.

„Þeir koma við og ræða um þetta málefni, sjálfsvíg og sjálfsskaða, við fólk sem vill koma og hitta þá, selja merki og dreifa kynningarefni frá okkur. Þeir hafa eignast vini víða um land,“ útskýrir Benedikt. ToyRun-félagar hitta gjarnan aðra bifhjólafélaga, á Egilsstöðum er þess vænst að félagar úr Goðunum taki á móti þeim.

ToyRun-félagar hafa viðkomu í Söluskála N1 á Egilsstöðum milli klukkan 20 og 21 í kvöld. Þeir stefna síðan á fjarðarúnt á morgun en nákvæm dagskrá liggur ekki fyrir.

Píeta-samtökin reka neyðarsíma 552-2218 sem opinn er allan sólarhringinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.