„Á hverju sumri stelst ég upp í Vallholt í Fljótsdal til að skrifa”

Rúnar Snær Reynisson á Egilsstöðum sigraði smásagnasamkeppni sem haldin var í tilefni af 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar Sameinuðu þjóðanna í desember og hlaut að launum dvöl í gestaíbúð fyrir listamenn í Marseille í Frakklandi.


Í tilefni 70 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember síðastliðinn efndu sendinefnd Evrópusambandsins, upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna, Rithöfundasambands Íslands, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands til smásagnasamkeppni. Alls bárust á áttunda tug sögur í keppnina sem áttu að fjalla um mannréttindi á einhvern hátt.

Rúnar Snær, sem betur er þekktur sem fréttamaður RÚV á Austurlandi, segir sögu sína Héðan í frá" meðal annars fjalla um vont veður og það hvernig fólk getur þurft að horfast í augu við samhengi hlutanna. Hana má lesa hér


„Þetta er svokölluð distópía, framtíðarsaga um þjóðfélagsskipulag eftir náttúruhamfarir vegna loftslagsbreytinga sem neyða samfélög til að verða sjálfbær hvað sem það kostar og til að taka erfiðar ákvarðanir. Sagan gerist samt ekki í þessari byltingu heldur í upphafi næstu byltingar þar á eftir. Það gerir söguna áhugaverða að mínu mati,” segir Rúnar Snær en í umsögn dómnefndar segir meðal annars;

„Höfundur leyfir ímyndunaraflinu að takast á við stöðu sem gæti beðið jarðarbúa ef fram heldur sem horfir. Þetta er efnismikil og vel skrifuð framtíðarsaga,” en alla umsögnina má lesa hér.


Skrifaði kvíðaævintýri í Pésann

Aðspurður hvort Rúnar Snær hafi skrifað lengi og hvort hann lumi á fleiri verkum í skúffunni segir hann;

„Þegar ég var í menntaskóla vann ég í kaupfélaginu á sumrin en lýsti því yfir eitt sumarið að ég myndi ekkert vinna í ágúst því ég ætlaði upp í Vallholt í Fljótsdal og skrifa smásögur í mánuð. Þetta þótti stórundarlegt. Á þessum tíma var lítið gert til að hvetja ungt fólk sem hafði áhuga á listum en það átti eftir að gjörbreytast til dæmis með Lunga á Seyðisfirði. Ég fékk samt hvatningu frá fólki sem hafði áhuga á því sem ég var að gera. Svo skrifaði ég sögur um sjálfan mig og ýmis kvíðaævintýri mín í Pésann í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þær urðu mjög vinsælar og drukknir busar lýstu yfir ánægju með stórmennið Rúnar Snæ Reynisson í myrkrinu fyrir utan Valaskjálf.

Ég fór í bókmenntafræði og íslensku í háskólanum og tók þá ritlistaráfanga sem voru í boði. Samdi drungalegar sögur og lokaritgerðirnar fjölluðu um spennu og innlifun. Á hverju sumri stelst ég upp í Vallholt í Fljótsdal til að skrifa í nokkra daga og í fyrra, á meðan ég var að pakka saman núðlusúpum og harðfiski, datt mér í hug að gúggla smásagnasamkeppni. Í ljós kom að það var skilafrestur í október í keppni þar sem þemað var mannréttindi. Ég átti eftir að vinna úr hugmynd sem mér fannst tengjast mannréttindum og þegar ég fór að láta hana passa inn í þemað kviknaði önnur hugmynd. Stundum þegar tvær hugmyndir rekast á losnar orka og sagan skrifaði sig sjálf.”

Skrifar og hreyfir sig snemma á morgnana

Að launum fyrir bestu smásöguna hlaut Rúnar Snær dvöl í gestaíbúð fyrir listamenn í Marseille, Frakklandi. Megum við eiga von á því að sjá meiri skáldskap frá honum, jafnvel eftir þá dvöl?

„Ég er með verk í smíðum en er búinn að komast að því eftir alla mína Vallholtsleiðangra að það er ekki til neins að treysta á skorpur. Rithöfundar þurfa að vera í æfingu, þurfa að halda sér við efnið og njóta þess sem þeir eru að gera á hverjum degi. Ég sagði þegar sagan var birt að ég væri búinn að grafa kvöldið. Núna fer ég á lappir áður en krakkarnir vakna og skrifa eða hreyfi mig. Þannig náði ég að klára þessa sögu og þannig get ég náð að njóta þess að skapa.

Ég ætla samt að nýta mér þetta tækifæri; að fá að fara til Marseilles í þrjár vikur. Mér finnst reyndar að fólk eigi ekki að þurfa að brenna þotueldsneyti í háloftunum til að skrifa eða stunda sína listsköpun. Þegar ég tók við verðlaununum sagði ég að nú þyrfti ég að gróðursetja ellefu tré. Þetta er auðvitað ekki svona einfalt því þá þarf ég að fá lánað úr tómu búri. Ég á enn eftir að finna út úr því hvernig ég fer að þessu.”


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.