400.000 í verðlaun fyrir bestu lausnina

Nýting á því sem hafið býður okkur er meginviðfangsefni nýsköpunarmótsins Hacking Austurlands sem hefst í dag. Þátttakendur fá tíma með leiðbeinendum og geta unnið til veglegra verðlauna.

„Hacking Austurland er „hackathon“, sem útleggst á íslensku sem lausnamót. Þetta er viðburður þar sem fólk kemur saman, kynnist og fer á hugarflug til að finna nýjar hugmyndir við áskorunum,“ segir Svava Björk Ólafsdóttir, frá Hacking Hekla, sem skipuleggur lausnamót á landsbyggðinni.

„Markmiðið er að vekja almennt athygli á nýsköpun, draga fram frumkvöðla á svæðinu og skapa tengingar við landið í heild því við komum með dómara og leiðbeinendur víða af landinu,“ segir hún.

Nýting hafsins, eða bláu auðlindarinnar, er meginviðfangsefni lausnamótsins. Lagt er upp með áskoranir eins og hvernig hægt sé að tengja saman sjávarútveg og landbúnað eða auka verðmætasköpun í sjávarútvegi með að nýta tækni og nýjar aðferðir.

„Hafið býður upp á fleira en fisk eða mat. Það er hægt að tengja nær allar atvinnugreinar við það,“ segir Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, verkefnastjóri frá Austurbrú.

Hacking Austurland hefst í Múlanum í Neskaupstað klukkan 17:00 í dag. Þar kynnast þátttakendur stuttlega áður en vinnan hefst með fyrirlestrum og fleiru. Áfram verður haldið á morgun og unnið að lausnum fram til laugardags. Enn er opið fyrir skráningu og þátttakendur geta komið og farið eftir þörfum. Ekki þarf heldur að mæta á staðinn heldur er hægt að taka þátt í gegnum netið.

Á laugardag klukkan 14:00 verður síðan uppskeruhátíð þar sem bestu lausnirnar verða verðlaunaðar, en sú besta fær 400.000 krónur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.