Plánetustígur opnaður á Breiðdalsvík: Líkan af sólkerfinu í réttum hlutföllum

planetustigur bdalsvik webBreiðdælingar opnuðu í gær stíg í þéttbýlinu þar sem hægt er að kynnast sólkerfinu okkar og plánetunum um leið og umhverfi staðarins er skoðað.

„Þetta sýnir hvað hægt er að gera skemmtilega hluti þegar hugmyndaflug, þekking og dugnaður fara saman," segir Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps.

Kveikjan að stígnum var fræðsla í stjörnufræði fyrir grunnskóla staðarins eftir áramót sem Martin Gasser, jarðfræðingur hjá Breiðdalssetri, leiddi. Unnið hefur verið hratt því stígurinn var formlega opnaður í gærkvöldi.

Plánetustígurinn er líkan af sólkerfinu í réttum stærðar- og fjarlægðarhlutföllum en mælikvarðinn er 1:333.333.000.

Stígurinn byrjar við Breiðdalssetur í Gamla Kaupfélaginu og lýkur í Drangagili, útsýnisstað fyrir ofan Þverhamar norðan við Breiðdalsvík.

Stígurinn er um tveggja kílómetra langur þar sem byrjað er á sólinni en síðan koma reikistjörnurnar hver af annarri.

Við hverja plánetu er skilti með fróðleik um hana þannig gestir geta bæði notið fróðleiks og útiveru í einu.

Til stendur að bæta við stíginn fjarlægari stjörnum en fyrrverandi reikistjarnan Plútó er kominn á sinn stað. Aðrar stjörnur eins og Sedna og mögulega halastjörnur eru á teikniborðinu.

Þá er stefnt að því að gera bækling með nánari upplýsingum sem verði aðgengilegur á netinu sem og á ferðamannastöðum í Breiðdal og upplýsingamiðstöðvum.

Frá opnun stígsins í gærkvöldi. Mynd: Hákon Hansson.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.