Plánetustígur opnaður á Breiðdalsvík: Líkan af sólkerfinu í réttum hlutföllum

„Þetta sýnir hvað hægt er að gera skemmtilega hluti þegar hugmyndaflug, þekking og dugnaður fara saman," segir Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps.
Kveikjan að stígnum var fræðsla í stjörnufræði fyrir grunnskóla staðarins eftir áramót sem Martin Gasser, jarðfræðingur hjá Breiðdalssetri, leiddi. Unnið hefur verið hratt því stígurinn var formlega opnaður í gærkvöldi.
Plánetustígurinn er líkan af sólkerfinu í réttum stærðar- og fjarlægðarhlutföllum en mælikvarðinn er 1:333.333.000.
Stígurinn byrjar við Breiðdalssetur í Gamla Kaupfélaginu og lýkur í Drangagili, útsýnisstað fyrir ofan Þverhamar norðan við Breiðdalsvík.
Stígurinn er um tveggja kílómetra langur þar sem byrjað er á sólinni en síðan koma reikistjörnurnar hver af annarri.
Við hverja plánetu er skilti með fróðleik um hana þannig gestir geta bæði notið fróðleiks og útiveru í einu.
Til stendur að bæta við stíginn fjarlægari stjörnum en fyrrverandi reikistjarnan Plútó er kominn á sinn stað. Aðrar stjörnur eins og Sedna og mögulega halastjörnur eru á teikniborðinu.
Þá er stefnt að því að gera bækling með nánari upplýsingum sem verði aðgengilegur á netinu sem og á ferðamannastöðum í Breiðdal og upplýsingamiðstöðvum.
Frá opnun stígsins í gærkvöldi. Mynd: Hákon Hansson.