Lumar þú á viðskiptahugmynd? Þá eru örnámskeiðin „Að finna hugmyndir - frá draumi að veruleika" fyrir þig

bergthora austurbru webAð finna hugmyndir - frá draumi að veruleika, er nafn á örnámskeiðum sem Austurbrú og Nýsköpunarmiðstöð Íslands standa fyrir í apríl og er ætlað til aðstoðar frumkvöðlum í að komast af stað með hugmyndirnar sínar.

Námskeiðin standa í fjóra klukkutíma og skiptast í tvennt. Annars vegar fjallað um aðferðir til að koma auga á hugmyndir og hvernig fólk þarf að hugsa og vinna til að sjá möguleg viðskiptatækifæri. Rætt verður um hugmyndir sem urðu að veruleika og hvernig þær þróuðust á fyrstu stigum.

Hins vegar verða kynntar aðferðir sem auðvelda fólki fyrstu skrefin við að meta hvort hugmyndir geta orðið viðskiptahugmyndir. Fjallað verður um þá þætti í umhverfinu sem þarf að skoða á fyrstu stigum áður en hafist er handa við frekari þróun hugmynda.

Aukið samstarf Austurbrúar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Bergþóra Arnórsdóttir, fulltrúi símenntunar hjá Austurbrú, segir að mikil áhersla hafi verið innan stofnunarinnar að auka samstarf við Nýsköpunarmiðstöðina og séu þessi námskeið liður í því. Markmið sé að hvetja fólk að notfæra sér þá aðstöðu og þekkingu sem er á frumkvöðlasetrinum.

„Mikilvægt er fyrir fólk sem býr yfir góðum hugmyndum að fá hvatningu og aðstoð við að þróa þær áfram og geta þannig mögulega skapað sér og öðrum vinnu í framtíðinni, nú eða í einhverjum tilfellum að afskrifa hugmyndina af því að annar aðili er að gera það sama, eða að viðskiptahugmyndin er ekki raunhæf."

Námskeiðin eru ókeypis

Bergþóra segir þetta námskeið ekki hafa verið haldið austanlands áður, en hins vegar hafi Nýsköpunarmiðstöð Íslands haldið fjölmörg námskeið á borð við Brautargengi og Vaxtasprotar, sem hafa skilað góðum árangri og komið fjölmörgum fyrirtækjum af stað.

„Allir þeir sem luma á góðri hugmynd sem þeir gætu notað til að skapa sér eða öðrum atvinnu ættu að nota tækifærið og koma á námskeiðið, sem er ókeypis. Þar gefst tækifæri til að hitta aðra frumkvöðla, ræða um hugmyndirnar til að sjá möguleg tækifæri og til að stofna til samstarf sem er oft mjög mikilvægt. Þá er einnig áhersla á að skoða og meta viðskiptatækifærin sem tengjast hugmyndinni."

Leiðbeinandi á örnámskeiðunum er Sigurður Steingrímsson, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Námskeiðin verða haldin á þremur stöðum:

• Djúpivogur, þriðjudaginn 21. Apríl, í frumkvöðlasetrinu Djúpinu (18:00-22:00)
• Egilsstaðir, miðvikudaginn 22. Apríl, í frumkvöðlasterinu Hugvangi (12:00-16:00)
• Neskaupstaður, miðvikudaginn 22. Apríl, í Fab Lab-smiðju Verkmenntaskólans (18:00-22:00)


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.