Óbyggðasetur í Fljótsdal: Hugmyndin er að þetta verði upplifun og ævintýri - myndir

obyggdasetur hjonakorninHjónin Steingrímur Karlsson, kvikmyndagerðarmaður og ferðaþjónustubóndi, og Arna Björg Bjarnadóttir, sagnfræðingur og menningarmiðlari, hafa um nokkurt skeið unnið að uppbygginu Óbyggðaseturs á Austurlandi þar sem þau hyggjast bjóða upp á sýningu, ferðir, gistingu og veitingar.

Óbyggðasetur Íslands er staðsett við jaðar stærstu óbyggða Norður-Evrópu, í Norðurdal í Fljótsdal. „Það hafa sumir haft efasemdir um staðsetninguna. Þetta er eins langt frá Reykjavík og þú kemst. En við trúum því að það sé til fólk sem vill upplifa eitthvað „orginal“, eitthvað meira en að vera í rútu með fullt af fólki að skoða Gullfoss og Geysi. Hér ríkir kyrrð, náttúrufegurð og saga sem stenst fáan samanburð,“ segir Steingrímur í samtali við Austurfrétt.

Gerum allt út á upplifunina

En hvað eruð þið nákvæmlega að gera þarna í Norðurdalnum? „Við munum bjóða upp á allt frá klukkutímalöngum reiðtúrum upp í tíu daga ferðir. Auk styttri sem lengri gönguferða með leiðsögn. Við höfum verið að merkja gönguleiðir í kringum okkur í samstarfi við Laugarfell en hér eru mjög falleg svæði með fossum alveg upp á hásléttuna sem fáir ferðamenn vita af.

Síðastliðin þrjú ár höfum við svo unnið að endurbyggingu á húsunum hérna og hönnun sýningar sem verður þar, auk þess sem erum að koma upp gistingu og aðstöðu fyrir veitingar. Það má segja að allt sem við gerum hérna sé gert út á upplifunina. Gluggar eru smíðaðir eftir kúnstarinnar reglum, herbergi og baðstofuloft er gert í upprunalegri mynd og þú sérð aldrei rafmagnsljós í baðstofunni, það er búið að fela þau í gömlum luktum. Hugmyndin er fyrst og fremst sú að þetta verði upplifun og ævintýri,“ segir Steingrímur sem að öllu jöfnu er kallaður Denni.

Eins og að labba inn í ævintýri

Segðu okkur frá þessari sýningu. „Hún verður frábrugðin því sem fólk er vant og með allt aðrar áherslur en t.d. byggðasöfnin, enda erum við að fjalla um óbyggðir og líf í jaðri þeirra. Við byggjum þetta á menningarlegum og faglegum grunni og við höfum lagt mikla vinnu í að safna heimildum og kortleggja svæðið og samhliða því þróa hvernig við getum miðlað sögunni svo hún sé bæði skemmtileg og fræðandi og skapi upplifun. Mikið verður lagt upp úr því að hafa alla uppsetningu lifandi og þegar fólk kemur hingað á það að vera eins og það labbi inn í ævintýri og inn í gamla tímann.“

Í samstarfi við hönnuði

Til að gera þetta sem best úr garði hafa Denni og Arna fengið einvalalið með sér. „Við höfum haft aðgang að framúrskarandi fagfólki. Eins og Árna Páli Jóhannssyni sem hannaði t.d. leikmyndina í Djöflaeyjunni, Ríkharði Kristjánssyni verkfræðingi, Hilmari Páli Jóhannessyni leikmyndasmið, Rúnu Thors hönnuði, auk þess sem Listaháskólinn útfærir hluta sýningarinnar.

Hjónin Gunnar og Bergljót, bændur á Egilsstöðum, eru þátttakendur í verkefninu en fjölskylda þeirra hefur búið þarna í um 150 ár. Margt merkilegra muna hefur varðveist sem nýtast munu á sýningunni, enda var Egilsstaðafólkið annálað hagleiksfólk, hefði sterka tengingu við óbyggðirnar og bjó yfir mikilli skyggnigáfu,“ bætir hann við.

Menningarferðaþjónusta

Á óbyggðasafninu er boðið upp á gistingu í baðstofu, hjónahúsi og í gamla íbúðarhúsinu. Gestum gefst einnig kostur á að njóta veitinga, bregða sér á hestbak og halda í styttri eða lengri gönguferðir.

„Við lítum fyrst og fremst á þetta sem menningarferðaþjónustu og fólk fær vonandi heilmikla upplifun. Þjálfun og viðmót starfsfólks á líka að endurspegla það. Við viljum hafa þetta ekta. Í gistingunni er til dæmis alls ekki sama hvernig rúmin líta út eða ábreiðurnar. Við erum að eltast við að ná sannfærandi útliti á allt. Við erum líka að gera smiðina gráhærða með því að biðja þá að gera hlutina út frá mikilli sérvisku, kannski viljandi skakka eða nota sérstaka nagla í gamla stílnum,“ segir Denni og hlær.

Líður best í sveitinni

En hvað varð til þess að auglýsingaleikstjóri tekur sig upp og stofnar setur lengst uppi í afdölum? „Ég er ættaður úr Fljótsdal og var alltaf í sveit þar þegar ég var lítill. Ég hef alltaf sótt í náttúruna og í raun líður mér best þegar ég er í sveitinni og uppi á fjöllum.
Það er alltaf spennandi að prófa eitthvað nýtt og þegar betur er að gáð tengist þetta kvikmyndagerð heilmikið. Sýningagerðin er hugmyndavinna sem miðast við að búa til sögu og hughrif, nákvæmlega eins og maður gerir í kvikmynd eða auglýsingu.“

En er allt að verða klárt? „Við opnum fyrir gistingu og veitingar í sumar og munum halda úti ferðum en aðalsýningin opnar þó ekki fyrr en næsta vetur. Við ætlum að gefa okkur lengri tíma til að klára hana eins vel og við getum. En við hvetjum fólk til að kynna sér það sem við höfum upp á að bjóða og erum líka alltaf reiðubúin að leiðbeina fólki á svæðinu eða leggja á ráðin með hvataferðir og viðburði,“ segir Denni að lokum.

Mynd1: Hjónin Steingrímur karlsson og Arnabjörk Bjarnadóttir
Mynd 2: Ævintýranlegir reiðtúrar allt frá klukkutímalöngum upp í tiu daga ferðir.
Mynd 3: Margar fallegar gönguleiðir er að finna á svæðinu
Mynd 4: Mikil endurbygging hefur átt sér stað og allt gert í upprunalegri mynd.
Myndir úr einkasafni.
obyggdasetur hestaferdir
obyggdasetur gonguleidir
obyggdasetur baer

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.