Sáu himininn lýsast upp yfir Upphéraði í gærkvöldi

tota halfdanar juni14Vegfarendur við Hallormsstað og Jökuldal urðu vitni að því þegar himininn yfir svæðinu lýstist óvænt upp í gærkvöldi. Stjarneðlisfræðingur segir líklegast að um stórt stjörnuhrap hafi verið að ræða en óskar eftir frásögnum frá fleirum.

„Þegar við komum vorum að keyra fyrir neðan Hafursá lýstist allur himinn upp yfir Hallormsstaðarhálsinum.

Þetta var bláleitur bjarmi, það bjartur að hann minnti á eldingu hvað birtumagn varðaði en við sáum ekki upptök ljóssins sjálfs. "

Þetta segir Þórunn Hálfdánardóttir en hún og maður hennar voru á leið heim í Hallormsstað um klukkan hálf tíu í gærkvöldi á sitt hvorum bílnum og sáu bjarmann, sem virtist koma úr suðsuðaustri, mjög greinilega. „Það fyrsta sem við sögðum þegar við stigum út úr bílunum var: „Sástu blossann?"

Eldingin er hins vegar nær útilokuð þar sem heiðskírt og stjörnubjart var enda fengust þær upplýsingar hjá Veðurstofu Íslands í morgun að engar eldingar væru skráðar á svæðinu í gær.

Eins hefur Austurfrétt spurn af vegfaranda á Jökuldal sem sá hvernig himininn lýstist upp.

Þórunn segir þetta ekki hafa verið ólíkt því að sjá loftstein falla en hún varð vitni að slíku á nánast sama stað fyrir um tuttugu árum.

Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands segir að líklega hafi verið um stórt stjörnuhrap að ræða.

„Við erum að meta hvað þetta getur hafa verið og viljum gjarnan fá frekari upplýsingar og heyra í sjónarvottum, ekki bara frá Austurlandi, heldur landinu öllu til að átta okkur á hvaðan þetta hefur komið."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.