Austfirsk ljós í myrkri á vetrarhátíð 2015

still2Vetrarhátíð Reykjavíkur er haldin árlega í febrúarmánuði til að auðga menningarlíf höfuðborgarinnar á þorra. Markmið hátíðarinnar er að lýsa upp mesta skammdegið í febrúar með viðburðum og uppákomum af ýmsu tagi, stórum sem smáum.

Hátíðin gefur landsmönnum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sér að kostnaðarlausu. Vetrarhátíðin fagnar ljósi og vetri og dagskráin tengist menningu og listum og hefst á fimmtudagskvöldi með glæsilegum útiviðburði miðsvæðis í Reykjavík, en að honum loknum taka við fjölmargar og fjölbreyttar dagskrár víðsvegar í miðborginni.

Listamenn að austan

Eitt af þeim verkum sem verður til sýnis á Vetrarhátíðinni nú í ár, kemur úr smiðju Ólafar Bjarkar Bragadóttur, myndlistarmanns og kennslustjóra Listnámsbrautar ME, nemenda hennar í samtímalistum á Listnámsbraut ME og 6 austfirskra skálda. Þau skáld sem taka þátt í verkefninu eru Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Hrafnkell Lárusson, Hulda Sigurdís Þráinsdóttir, Ingunn Snædal, Sigurður Ingólfsson, Stefán Bogi Sveinsson og Steinunn Friðriksdóttir.

Verkefnið heitir nú „Austfirsk ljós í myrkri“. En um er að ræða framhald á verkinu „Lista-ljós í myrkri“ sem sýnt var hér fyrir austan á vetrarhátíð okkar Austfirðinga, „Dögum myrkurs“ nú rétt fyrir jól. Að þessu sinni verða verkin sýnd í nýju samhengi á Sundlaugarnótt í Laugardalslauginni laugardaginn 7. febrúar 2015 næstkomand frá kl. 19.00 – 23:00

Austfirsk ljós í myrkri

Lóa Björk, listrænn stjórnandi verkefnisins, fékk til liðs við sig ljóðskáld sem völdu eða skrifuðu sérstaklega ljóð fyrir verkefnið en ljóðin áttu að tengjast að einhverju leyti vetrinum, ljósi og hinu magnaða myrkri. Listanemarnir myndgerðu síðan ljóðin þannig að til urðu vídeóverk út frá ljóðum skáldanna sem öll fjalla á einhvern hátt um hið magnaða myrkur sem er einmitt þema Vetrarhátíðarinnar í ár. Ljósið er þannig útgangspunkturinn í verkefninu en nemendurnir fengu það hlutverk að vinna með ljóðin út frá eigin hugmyndum með ýmsum hætti. Þeir listanemendur úr ME sem tóku þátt í verkefninu voru: Almar Blær Sigurjónsson, Álfgerður Malmquist, Birkir Snær Sigurjónsson, Elín Dóra Elíasdóttir, Elsa Katrín Ólafsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir, Ingibjörg Lárusdóttir, Ísak Aron Hammer, Lilja Iren Gjerde, Natalía Gunnlaugsdóttir, Premyslaw Czech, Rannveig S. Róbertsdóttir, Reynir Rafn Gunnarsson, Sigríður Tinna Sveinbjörnsdóttir, Stefán Númi Stefánsson og Sveinn Hugi Jökulsson.

Sameinar ólíkar listgreinar

Með þessu verkefni sýnir Lóa fram á hvernig tengja má saman ólíkar listgreinar eins og ljóðlist, tónlist og sjónlistir. Markmiðið var að kanna hvernig má nýta skammdegið til uppsprettu listsköpunar og það gera hún og nemendur hennar með því að myndgera ljóð skáldanna. Þannig er ýmist búið að hljóðgera myndböndin með upplestri skáldanna á ljóðum sínum eða þau vinna með öðrum hætti textaverk inn í myndböndin og bæta jafnvel tónlist við. Verkefnið hófst með samstarfi við listamenn bæði íslenska og erlenda, sem heimsóttu okkur vegna videólistahátíðarinnar 700IS Hreindýraland, sem haldin var hér í haust sem leið en þá var þema hátíðarinnar texti og mynd. Nemendur fengu að kynnast videóverkum listamannanna, ólíkum aðferðum þeirra til listsköpunar og mismunandi túlkun á texta og veitti það þeim innblástur við eigin listsköpun í framhaldinu. Þess má geta að hátíðin 700IS Hreindýraland var einmitt að opna nú fyrir stuttu í 10. og síðasta skipti í Norræna húsinu í Reykjavík með sýningunni MYNDBREYTING sem er einnig hluti af Vetrarhátíð að þessu sinni. Á Safnanótt lifnar sú sýning einmitt við í Norræna húsinu þann 6. 2. frá kl 12:00-23:00, listamenn spalla við gesti og gangandi og segja frá verkum sínum. Þeir listamenn sem Kristín Scheving hefur valið að vinna með á þessri síðustu sýningu eru allt listamenn sem hún hefur unnið með á síðustu tíu árum í mismunandi sýningum og verkefnum.

Auk verka nemenda í samtímalistum á listnámsbraut ME í samstarfi við austfirsk skáld verður sýnt verk eftir Lóu Björk og Sigurð Ingólfsson skáld, tileinkað Lagarfljótinu, litbrigði þess og margbreytileika eftir árstíðum. Og að lokum sýnir hún við sama tækifæri, nýtt tónlistarmyndband við lagið Special Place unnið af Muted, austfirðingnum Bjarna Rafni Kjartanssyni tónlistarmanni, Sindra Steinarssyni sem gerir myndbandið og söngkonunni Jófríði Ákadóttir úr Samaris. Þess má geta að yngri bróðir Bjarna Rafns, Auðun Bragi Kjartansson leikur í myndbandinu.

Sýnishorn af Austfirskri listsköpun

Videóverkum Lóu og nemenda hennar verður varpað upp í rými Laugardalslaugar á Sundlaugarnótt. Um er að ræða áhugavert sýnishorn af austfirskri listsköpun þar sem hið magnaða myrkur er í aðalhlutverki. Eitt af markmiðunum með sýningu þessa verkefnis nú er að sýna hvað býr í austfirskum listanemum og kynna um leið hvað Listnámsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum hefur upp á að bjóða.

Nú er Listnámsbraut ME orðin ein af fjórum stúdentsbrautum skólans og í fararbroddi annarra skóla hvað varðar uppbyggingu listnáms samkvæmt nýrri námskrá. Þar er boðið er upp á grunnmenntun á sviði sjónlista og sviðslista. Stúdentspróf af brautinni nýtist í framhaldsnámi í öllum listgreinum og er góður undirbúningur undir nám og störf í víðu samhengi.

Vonast er eftir að sem flestir landsmenn komi og njóti þess sem fer fram þetta kvöld á Safnanótt í Laugardalslaug. Milli klukkan 17:00-19:00 verða ýmsar uppákomur fyrir alla fjölskylduna ásamt leiktækjum í innilaug og einnig verður lögð áhersla á notalega stemmingu með kyndlum á útisvæði ásamt lágstemmdri tónlist. Verkið „Austfirsk ljós í myrkri“ hefst um klukkan 19:00 og stendur til miðnættis. Listrænn stjórnandi verkefnisins er Ólöf Björk Bragadóttir, www.loabjork.com
Screen Shot 2014-12-13 at 16.53

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.