Mögnuð norðurljós yfir Eskifirði: Hafði lengi langað til að mynda á heimaslóðum - Myndband

eskifjordur nordurljos hhhNorðurljósamyndband sem Hálfdán Helgi Helgason tók af Eskifirði hafa vakið athygli víða. Hann segist hafa verið heppinn með veður þegar hann heimsótti heimaslóðir sínar um hátíðarnar.

„Að mynda norðurljósin er áhugamál hjá mér. Ég hef lengi myndað dýr en fékk smá aukastarf sem leiðsögumaður í norðurljósaferðum hér í Tromsö og hef haldið áfram að leika mér að þessu síðan," segir Hálfdán.

Hálfdán, sem búsettur er í Noregi þar sem hann starfar við að samhæfa aðgerðir í alþjóðlegu verkefni þar sem kortlagðar eru vetrarstöðvar sjófugla úr byggðum við Barents- og Norður-Atlantshaf, heimsótti æskuslóðirnar á milli jóla- og nýárs með myndavélina.

„Mig hafði lengi langað til að mynda á Eskifirði en kem náttúrulega ekki oft þangað nú orðið. Því var það heppni að ná svona fínum ljósum og heiðum himni þetta kvöld."

Hann fékk frænda sinn og æskuvin, Sturlu Má Helgason, til að gera tónlist við myndband sem hann setti á netið. Fjöldi Austfirðinga og annarra áhugasamra hafa deilt því síðan.

Hálfdán segir norðurljósamyndatöku ekki snúast um allra nýjustu græjurnar heldur útsjónarsemi. „Það er ekki svo mikið mál að mynda norðurljósin ef maður kynnir sér aðferðirnar aðeins fyrst og finnur rétta búnaðinn. Það þarf ekki dýrustu og flottustu græjurnar heldur pæla pínu í hvað maður er að gera."Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.