Tónleikahöllin Tvísöngur opnuð

Tvísöngur Seyðisfirði

Fjölmenni var við vígslu á útilistaverkinu „Tvísöngur“ á Seyðisfirði, þegar það var opnað almenningi í gær. Verkið er hljóðskúlptúr, tileinkaður íslenska tvísöngnum. Heimamenn tala um verkið sem tónleikahöll.

Boðið var upp á heilgrillað lamb og drykki við allra hæfi.  Eftir að allir höfðu fengið flís af lambsskrokknum hélt höfundur verksins Lukas Kühne stutt ávarp, auk þess sem nokkrir gestir höfðu stutta tölu.

Því næst voru nokkur tónlistaratriði, meðal skipulagðra atriða var fimmundarsöngur fluttur af Ingólfi Steinssyni og Gylfa Gunnarssyni, sem flestir þekkja úr hljómsveitinni Þokkabót, Einar Bragi Bragason lék eitt lag á saxafón, einnig fluttu börn úr Seyðisfjarðarskóla og félagar úr Kór Seyðisfjarðarkirkju nokkur lög. 

En eftir að skipulagðri dagskrá lauk bættust við nokkur atriði frá gestum opnunarinnar. Var ekki annað að heyra á viðstöddum en þetta þætti skemmtileg viðbót við þá fjölbreyttu menningarflóru sem þegar prýðir Seyðisfjörð og mátti heyra ýmsum hugmyndum fleygt fram meðal viðstaddra um mögulega framtíðarnýtingu þessarar „tónleikahallar“, eins og einn gesturinn orðaði það.

Tvísöngur er eins og áður sagði útilistaverk eftir listamanninn Lukas Kühne, listaverkið er staðsett á svokölluðum Þófum, ofan við bræðslu Síldarvinnslunnar. Um er að ræða hljóðskúlptúr sem tileinkaður er íslensku tvísöngshefðinni og hljómburður þess þannig upp byggður að hann magnar upp tóna með fimmundar millibili.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að berja listaverkið augum er tilvalið að fara fótgangandi upp gamlan vegslóða sem liggur frá bílaplani ofan við frystihús Brimbergs og er það um 10 – 15 mínútna gangur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.