Skip to main content

10 ára starfsafmæli söngkvintettsins Olga Vocal Ensemble

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. júl 2023 14:46Uppfært 10. júl 2023 14:46

Olga Vocal Ensemble, alþjóðlegur sönghópur, fagnar 10 ára starfsafmæli í ár og heldur tónleika víðs vegar um Ísland, í kvöld koma þeir fram á síðustu tónlistarstund sumarsins sem fer fram í Egilsstaðakirkju.

 

Olga Vocal Ensemble er alþjóðlegur söngkvintett sem stofnaður var 2013. Hópurinn samanstendur af 5 söngvurum, 3 búsettir í Hollandi og 2 á Íslandi. Olga Vocal Ensemble hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan sumarið 2013, að undanskildu árinu 2020.

Í tilefni 10 ára starfsafmælis halda þeir tónleika víðs vegar um landið. Þeir hófu ferð sína laugardaginn síðastliðinn á Siglufirði með tvenna tónleika, komu fram á Akureyri í gær en í kvöld ætla þeir að halda tónleika í Egilsstaðakirkju klukkan átta. „Við náðum að sofa vel í nótt og erum mjög hressir og spenntir fyrir kvöldinu, við vitum þó auðvitað af slysinu í gær og er hugur okkar hjá fólkinu á Austurlandi.“ Segir Pétur Oddbergur Heimisson, meðlimur sönghópsins.

Olga hefur haldið tónleika víða um heiminn, í Bandaríkjunum, Hollandi, Frakklandi, Belgíu, Spáni og á Íslandi. Gestir geta átt von á fjölbreyttri efnisskrá á tónleikum söngsveitarinnar segir Pétur „Þetta er í raun mjög fjölbreytt, allt frá klassískum lögum yfir í smá popp og jazz, Edith Piaf og Ég er kominn heim svo dæmi séu nefnd.“

Tónleikarnir í kvöld eru hluti af tónleikaröð í Egilsstaðakirkju. Tónlistarstundir hafa verið styrktar af Uppbyggingasjóði Austurlands, Múlaþingi, Egilsstaðakirkju og Vallaneskirkju og er aðgangur á tónleikana því ókeypis í kvöld.