Skip to main content

Vopnfirðingar sameinast um sitt sögufræga lið

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. jan 2019 15:14Uppfært 18. jan 2019 15:14

Mikill áhugi Vopnfirðinga á knattspyrnu, sem virðast mæta jafnt á leiki meistaraflokks sem yngri liða, kemur mörgum mótherjum sem þangað koma á óvart. Landfræðilegar aðstæður gera það að verkum að mikla þrautseigju þarf í að halda úti liðinu.


„Auðvitað hefur komið upp umræða, þá frekar í seinni tíð, að sameinast. Við erum hins vegar einangruð, knattspyrnulega séð höfum við lítið að sækja í norður og það er 1,5 tímar í Egilsstaði,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði karlaliðs Einherja en fjallað er um knattspyrnuhefðina á Vopnafirði í nýjasta þætti Að Austan á N4.

Bjartur segir knattspyrnuhefðina hafa byggst upp á áttunda og níunda áratugnum þegar liðið náði feikigóðum árangri á landsvísu.

„Hér er sterk knattspyrnuhefð. Menn klæða sig stoltir í Einherjatreyjuna. Það er mikil saga sem fylgir henni.

Heimavöllurinn okkar er þekktur fyrir að vera gryfja. Það gefur Vopnfirðingum mikið að stilla saman strengi sína í kringum liðið. Hér er alltaf vel mætt á leiki, sama hvort meistaraflokkur eða yngri flokkar eru að spila og foreldrar barna sem koma hingað furða sig oft á því.“

Bjartur neitar því þó ekki að það sé stundum hark í fámennu byggðarlagi að manna knattspyrnulið með ellefu leikmönnum í Íslandsmótið bæði í karla- og kvennaflokki.

„Það er alltaf sama umræðan á hverju hausti, hvernig er staðan, hverjir ætla að vera með næsta sumar og hverjir ætla að breyta til.

Það er blóðtaka fyrir okkur þegar leikmenn sem vilja spila í betri deild fara. Við erum með nokkra uppalda leikmenn sem við vildum gjarnan hafa hér heima. Við bíðum alltaf eftir að þeir komi til okkar sem förum aldrei neitt.“