Skip to main content

Viðar Örn: Haukar einfaldlega með besta liðið í deildinni

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. mar 2013 23:00Uppfært 08. jan 2016 19:24

hottur_haukar_22032013_0018_web.jpg
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ekkert sérstaklega niðurdreginn þrátt fyrir að liðið tapaði 70-98 fyrir Haukum í fyrstu deild karla í körfuknattleik í lokaumferð deildarinnar á Egilsstöðum í kvöld. Haukar fögnuðu deildarmeistaratitlinum og sæti í úrvalsdeild en Höttur var búinn að tryggja sig inn í úrslitakeppnina.

„Haukarnir eru einfaldlega með besta liðið í þessari deild og eiga deildarmeistaratitilinn fyllilega skilið,“ sagði Viðar Örn í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

Leikmenn Hattar áttu erfitt uppdráttar gegn sterkum andstæðingum. Sérstaklega var haldið aftur af Frisco Sandidge sem skoraði aðeins níu stig, þar af tvö af vítalínunni í blálokin. Hafnfirðingarnir spiluðu afar ákveðna vörn gegn honum.

„Þetta datt ekki fyrir Frisco í dag. Það var spiluð gróf vörn á hann og dómararnir dæmdu lítið sem ekkert okkar megin þó svo að það hafi ekki verið ástæðan fyrir tapinu!“

Viðar horfir hins vegar fram í úrslitakeppnina. Höttur mætir þar Hamri, sem liðið vann nýverið stórsigur á í Hveragerði. Fyrri leikurinn verður þar miðvikudagskvöldið 3. apríl og leikur númer tvö föstudagskvöldið 5. apríl.

Hann segir að farið verði yfir þá hnökra sem fram komu í kvöld fyrir þann leik. „Við vorum ekki alveg nógu góðir varnarlega í kvöld. Við munum fara yfir þessa hluti í vikunni og mæta tilbúnir í úrslitakeppni. Það er þvílíkur andi í liðinu og við munum mæta klárir þegar mest á reynir.“

Þar skiptir stuðningur heimamanna miklu máli. „Ég bið fólk um að fylla íþróttahúsið á Egilsstöðum og styðja okkur í baráttunni um laust sæti í efstu deild. Austurland á að eiga fulltrúa í efstu deild í flestum íþróttum.“