Skip to main content

Sigmar valinn íþróttamaður Hattar fyrir árið 2018

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. jan 2019 10:13Uppfært 08. jan 2019 11:02

Körfuknattleiksmaðurinn Sigmar Hákonarson er íþróttamaður Hattar fyrir árið 2018. Íþróttafólk félagsins var heiðrað á þrettándabrennu á Egilsstöðum á sunnudagskvöld.


Í umsögn segir um Sigmar að hann sé góður íþróttamaður og flott fyrirmynd fyrir aðra iðkendur. Hann leggi sig allan fram í æfingum sem og við önnur verkefni, svo sem fjáröflunum og vinnu við leiki yngri flokka.

Sigmar hefur leikið með meistaraflokki frá árinu 2011 og á að baki 181 leik. Á síðasta keppnistímabili, þar sem Höttur lék í úrvalsdeildinni, skoraði Sigmar 8 stig að meðaltali í leik, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.

Stakar deildir Hattar heiðruðu einnig sitt íþróttafólk. Hjá fimleikadeild var það Lísbet Eva Halldórsdóttir, Friðbjörn Árni Sigurðarson í frjálsíþróttadeild og Kristófer Einarsson í knattspyrnudeild.

Þá voru veitt starfsmerki Hattar tveimur einstaklingum sem starfað hafa fyrir félagið árum saman. Þau hlutu Auður Vala Gunnarsdóttir sem lét af störfum sem yfirþjálfari fimleikadeildar eftir 18 ára starf. 

Árni Ólason fékk einnig viðurkenningu en hann hætti sem formaður knattspyrnudeildar félagsins eftir 15 ára starf.

Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar, Lísbet Eva, Friðbjörn Árni, Kristófer, Sigmar og Björn Ingimarsson, bæjartstjóri Fljótsdalshéraðs.