Skip to main content

Níu keppendur UÍA í Bikarglímu Íslands heim með tólf verðlaun

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. feb 2022 15:04Uppfært 25. feb 2022 16:21

Ungmennafélag Austurlands gerði góða ferð á Bikarglímu Íslands sem fram fór á Hvolsvelli um liðna helgi en þeir níu keppendur sem þar kepptu fyrir hönd UÍA komu heim aftur með tólf medalíur.

Sandra Dögg Kjartansdóttir náði þar þriðja sætinu í flokki ellefu ára stúlkna, Elín Eik Guðjónsdóttir gerði gott betur í flokki fimmtán ára stúlkna og sigraði þann flokk.

Hart var tekist á í strembnum flokki 13 ára stráka en þar átti UÍA tvo keppendur. Þórhallur Karl Ásmundsson endaði upp með silfur í öðru sætinu meðan Matthías Örn Kristinsson endaði fjórði eftir tvær úrslitaglímur.

Krístin Embla Guðjónsdóttir keppti í tveimur flokkum: +65 kg og opnum flokki kvenna og náði silfri í báðum þessum flokkum.

Þá sigraði Hákon Gunnarsson tvöfalt í bæði +80 kg flokki og opnum flokki karla. Hjörtur Elí Steindórsson var ekki langt undan Hákoni því hann náði öðru sætinu í opnum karlaflokki.

Þá krækti Snjólfur Björgvinsson sér í þriðja sætið í -80 kg unglingaflokknum og bætti um betur í -80 kg flokki karla þar sem hann tók silfurverðlaun. Ægir Már Halldórsson nældi sér einnig í tvær medalíur. Annars vegar með að verða þriðji í +80 kg unglingaflokknum og hins vegar fyrir annað sætið í -90 kg flokknum.

Mynd: Ungmennafélag Austurlands gerði góða ferð til Hvolsvallar um liðna helgi. Mynd Hjörtur Elí Steindórsson