María Rún valin íþróttamaður Þróttar
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. des 2017 17:30 • Uppfært 04. des 2017 17:31
María Rún Karlsdóttir, blakkona, var um helgina útnefnd íþróttamaður Þróttar Neskaupstað fyrir árið 2017. Íþróttamenn úr hverri deild félagsins voru verðlaunaðir fyrir árið við sama tilefni.
María Rún skipti í sumar yfir í Aftureldingu en hún er uppalin í Þrótti og spilaði með liðinu á síðustu leiktíð.
Hún var þá stigahæsti leikmaðurinn í Mizuno-deild kvenna, var valin í lið ársins og tilnefnd sem besti leikmaðurinn.
Þá var María í íslenska landsliðinu sem varð Evrópumeistari smáþjóða í sumar og tók þátt í undankeppni HM.
Í rökstuðningi stjórnar Þróttar segir að María Rún sé metnaðarfullur og vinnusamur íþróttamaður. Hún leggi sig fram í öllu sem hún taki sér fyrir hendur og ætli sér meira. Þá sé hún góð fyrirmynd innan vallar sem utan.
María Rún á ekki langt að sækja blakhæfileikana en móðir hennar, Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, á að baki áralangan farsælan feril með bæði Þrótti og íslenska landsliðinu.
Þá var Hlynur, yngri bróðir Maríu, útnefndur sundmaður Þróttar. Verðlaunin voru afhent þegar kveikt var á jólatrénu í miðbæ Neskaupstaðar.
Katrín Björg Pálsdóttir var útnefnd knattspyrnukona ársins hjá Þrótti, Andri Gunnar Axelsson fékk viðurkenningu frá skíðadeildinni og Jón Sen frá karaktedeildinni.