Skip to main content

Leikmaður Hattar sendur heim fyrir ofbeldisbrot

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. des 2018 11:37Uppfært 12. des 2018 11:38

Körfuknattleiksdeild Hattar hefur rift samningi sínum við miðherjann Pranas Skurdauskas eftir að lögregla hafði afskipti af leikmanninum fyrir ofbeldisbrot.


Í tilkynningu sem deildin sendi frá sér í gærkvöldi segir að leikmaðurinn sé farinn frá félaginu og af landi brott, en Pranas er litháískur ríkisborgari.

Þar er hegðun Pranas fordæmd og sagt að hún samræmist í engum gildum eða reglum deildarinnar. Staðfest er að hann hafi orðið uppvís af ofbeldisfullri hegðun og mál hans komið til kasta lögreglu.

Þótt liðið undirbúi mikilvæga leiki í fyrstu deild karla séu gildin ekki lögð til hliðar. Stjórn deildarinnar harmar atvikið og segir að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana.

Pranas kom til liðsins fyrir yfirstandandi leiktíð en hann hefur leikið átta leiki, skorað í þeim 10,3 stig að meðaltali og tekið 9,3 fráköst.

Höttur er í fimmta sæti deildarinnar en útlit er fyrir hatramma baráttu um efstu liðanna fimm um hvaða tvö þeirra spili í úrvalsdeildinni næsta vetur. Höttur á útileik gegn einu þeirra, Hamri, á föstudag og svo heimaleik gegn því liði sem nú er á toppnum, Þór Akureyri, fimmtudaginn í næstu viku.