Skip to main content

Fótboltavöllurinn verði að tjaldsvæði

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. sep 2021 10:08Uppfært 08. sep 2021 10:08

Íbúasamtök Stöðvarfjarðar hafa lagt til við Fjarðabyggð að gera fótboltavöll bæjarins að tjaldsvæði. Gert er ráð fyrir að helmingur vallarins yrði áfram íþróttasvæði.


„35 metrar af innanverðum vellinum yrði áfram fótboltavöllur. Það nægir undir þá notkun sem hefur verið á vellinum seinustu ár. Þá er líka skemmtilegt útivistarsvæði komið fyrir tjaldsvæða gesti, þar sem þeir geta farið í leiki, spilað fótbolta eða hvað sem er,“ segir í hugmyndum íbúasamtakanna til Fjarðabyggðar.

„Það svæði yrði mögulega lagað þar sem skemmdir eru í vellinum eftir að ljósleiðari var lagður í gegnum hann. Þá koma 75 metrar af vellinum sem myndu nýtast undir húsbíla, tjaldvagna og fellihýsi. Aðstöðuhúsið yrði svo staðsett í efra úthorninu á vellinum. Þar þarf að koma fyrir rotþró. Vegurinn niðrá völlinn yrði svo breikkaður og hækkaður til að gera alla aðkeyrslu þægilegri,“ 

Lagt er til að manir verði settar á fótboltavöllinn til að aðskilja völlinn og tjaldsvæðið. „Einnig kæmi mön meðfram sjávarsíðunni til að loka á haf áttina og mynda skjól inná tjaldsvæðið. Í þessar manir yrðu svo gróðursett tré sem eru orðin nokkuð há, 1-2 metrar, til að mynda sem mest skjól sem fyrst,“ segir í hugmyndunum.

Hugmyndir Íbúasamtaka Stöðvarfjarðar voru teknar fyrir á síðasta fundi menningar- og nýsköpunarnefndar Fjarðabyggðar sem fól atvinnu- og þróunarstjóra að vinna málið áfram með samtökunum.