Skip to main content

Kristín Salín: Þetta eru bestu áhorfendur í heimi

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. apr 2013 23:05Uppfært 08. jan 2016 19:24

kristin_salin.jpg
Kristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirliði Þróttar, segir áhorfendur hafa leikið stórt hlutverk í 3-1 sigri liðsins í fyrsta leik gegn HK um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í Neskaupstað í gærkvöldi. Róandi hafi verið að vera alltaf skrefinu á undan á dramatískum lokamínútum.

„Við vorum alltaf stigi yfir og maður er heldur rólegri við slíkar aðstæður heldur en stigi undir,“ sagði Kristín í samtali við Austurfrétt eftir leikinn í gær. Þróttur gat þrisvar tryggt sér sigur í fjórðu hrinu sem vannst að lokum 29-27.

Staðan hefði getað verið önnur. Í byrjun hrinunnar voru tvö stig dæmd af Þrótti og einu bætt á HK þar sem liðið gerði sig sekt um ranga sendiröð. „Við gerðum það fyrir þjálfarann okkar að bæta upp fyrir þetta.“

Leikurinn tafðist um tuttugu mínútur á meðan dómararnir fóru yfir málið og úrskurðuðu í málinu. Kristín segir að Þróttarliðið hafi einfaldlega beðið rólegt á meðan því stóð. „Við héldum okkur heitum og áhorfendur byrjuðu að klappa og peppa okkur upp.“

Þegar hléinu lauk skoruðu Þróttarstelpur fimm stig í röð. Í hléinu höfðu áhorfendur staðið á fætur og byrjað að búa til hávaða og stuðning. Því héldu þeir áfram til loka. „Þetta eru bestu áhorfendur í heimi!“ fullyrti Kristín.

Hún segir mikilvægt að hafa unnið fyrsta leikinn í rimmunni. Það efli sjálfstraustið fyrir næsta leik í Kópavogi annað kvöld. „Við mætum hressar og kátar til leiks. Helsti gallinn er að við höfum ekki okkar áhorfendur þar.“

Með sigrinum í gærkvöldi kom Þróttur fram ákveðnum hefndum gegn HK eftir 2-3 tap í úrslitum bikarkeppninnar fyrir tæpum tveimur vikum. 

„Við vorum búnar að æfa vel og höfðum svör við flestu því sem HK bauð upp á. Á köflum dettur móttakan niður hjá okkur og þar gerum við sjálfum okkur fyrir. Þegar allt fer í gang hjá okkur er fátt sem stöðvar okkur.“