Skip to main content

Körfubolti: Höttur vann fyrsta leikinn gegn Álftanesi

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. apr 2022 10:11Uppfært 17. apr 2022 10:13

Höttur vann í gærkvöldi fyrsta leikinn gegn Álftanesi í umspili liðanna um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Höttur hafði tök á leiknum í seinni hálfleik.


Lítið kom á óvart í byrjun, Álftanes byrjaði á að leita inn í teiginn og komst í 2-10 en Höttur snéri því hægt og rólega sér í vil. Friðrik Anton Jónsson hjá Álftanesi og Tim Guers hjá Hetti voru atkvæðamestir í stigaskoruninni og voru báðir komnir í yfir 10 stig eftir fyrsta leikhluta. Álftanes leiddi eftir hann, 23-42.

Leikurinn þróaðist áfram á svipaðan hátt. Liðin leituðu að skynsömum skotum, tóku litla áhættu og forðuðust að fá hraðaupphlaup í bakið. Höttur fór að síga lengra framúr, samhliða því sem liðið breytti vörninni, fór að pressa framar og auka hraðann í leiknum. Í hálfleik var Höttur með 52-47 forskot.

Snemma í þriðja leikhluta var Höttur kominn í tólf stiga forskot, 61-49. Álftanes tók leikhlé og náði aðeins að klípa af forskotinu eftir það en í lok leikhlutans var forskot Hattar 80-71.

Álftanesi tókst að halda í horfinu meðan það hvíldi lykilmenn í byrjun fjórða leikhluta fyrir lokaáhlaupið. Þegar liðið virtist ætla að fara að gera sig líklegt í það settu Hattarmenn niður mikilvægar körfur og héldu í tíu stiga forskotið.

Þriggja stiga karfa Dino Stipcic minnkaði muninn úr 102-92 í 102-95 og svo kom önnur karfa í viðbót. Álftanes fékk fleiri skotfæri í lokin en Höttur sigldi heim 102-97 sigri. Tim Guers dró vanginn hjá Hetti, skoraði 39 stig.

Liðin mætast öðru sinni á Álftanesi á þriðjudagskvöld. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer upp um deild.