Haraldur á EM í bogfimi
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. jún 2022 16:24 • Uppfært 08. jún 2022 16:25
Haraldur Gústafsson, bogfimimaður úr SKAUST, er meðal keppenda Íslands á Evrópumótinu í bogfimi utanhúss.
Tólf keppendur fóru frá Íslandi á mótið sem haldið er í München í Þýskalandi í þessari viku.
Hvert land má senda eitt lið, sem er skipað þremur einstaklingum, í hverja grein hjá hvoru kyni og fullnýta Íslendingar því kvóta sinn.
Haraldur keppir í sveigboga karla ásamt þeim Oliver Ormari Ingvarssyni og Degi Erni Fannarssyni.
Haraldur hefur verið frumkvöðull í bogfimiíþróttinni á Austurlandi samhliða því að ná góðum árangri sjálfur. Fyrir það var hann valinn íþróttamaður UÍA í vor.
Í febrúar keppti hann á Evrópumótinu innanhúss í Slóveníu og endaði þar í níunda sæti með sveigbogaliðinu. Í undankeppni þess móts sló hann Íslandsmótið í sveigboga karla 50 ára og eldri.
Samhliða mótinu í München er keppt um laus sæti á Evrópuleikunum að ári. Haraldur er meðal þess bogfimifólks sem sett hefur stefnuna þangað. Líklegt er þó að hann þurfi fleiri undankeppnir til að ná því takmarki.