Skip to main content

Brynjar Snær: Vissum strax í upphituninni að við værum að fara að vinna

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2022 23:44Uppfært 22. apr 2022 23:45

Brynjar Snær Grétarsson, fyrirliði körfuknattleiksliðs Hattar sem fyrr í kvöld tryggði sér sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð með 99-70 sigri á Álftanesi, segir leikmenn þess hafa allan leikinn hafa verið sigurvissa.


„Við vissum strax í upphituninni að við værum að fara að vinna. Við sáum það var stemming okkar megin en dautt hinu megin,“ sagði Brynjar Snær eftir leikinn.

Höttur fylgir þar með Haukum upp í úrvaldeildina. Haukar unnu deildina og fara beint upp meðan Höttur þurfti í úrslitakeppni þar sem það tapaði ekki leik, vann Fjölni og Álftanes í þremur leikjum hvort lið.

Í undanúrslitunum þurfti Álftanes fimm leiki gegn Sindra og Brynjar Snær segir það hafa gefið Hetti forskot. „Við fengum viku í hvíld meðan þeir voru í fimm leikja baráttu gegn Sindra. Það gaf okkur forskot sem við nýttum vel. Þeir orðnir dauðþreyttir, við fundum þreytuna á þeim strax í fyrsta leik.“

Meðal annars vegna þess fagna Hattarmenn í kvöld. „Tilfinningin er helvíti góð. Við höfum stefnt að þessu síðan 15. maí í fyrra og við náðum takmarkinu. Við fögnum í kvöld en á morgun er þetta gleymt. Við njótum augnabliksins – það er geggjað!“