Skip to main content

Bikartitlar hjá skíðafólki

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. apr 2018 08:29Uppfært 26. apr 2018 08:30

Lið UÍA hampaði bikarmeistaratitli í flokki 16-17 ára drengja á skíðum en vertíð skíðafólks er að ljúka. Þá varð liðið í öðru sæti í flokki 12-13 ára stúlkna.


Í einstaklingskeppni varð Andri Gunnar Axelsson í þriðja sæti en hann vann eitt mótanna í Bláfjöllum í byrjun mars. Með honum í UÍA-liðinu voru Jóhann Gísli Jónsson og Guðmundur Kristinn Þorsteinsson.

Jóhanna Lilja Jónsdóttir varð önnur og Rósey Björgvinsdóttir þriðja í flokki 12-13 ára stúlkna. Jóhanna Lilja vann fyrstu umferðirnar tvær í Bláfjöllum og Rósey mót á Ísafirði í lok mars. Tvær umferðir voru skíðaðar í Stafdal en Jóhanna Lilja missti af seinni umferðinni þar. Með þeim í UÍA-sveitinni var Sóldís Tinna Eiríksdóttir.

Skíðafólk úr Skíðafélaginu Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar keppir saman á landsvísu undir merkjum UÍA.

Þá náði Andri Gunnar Axelsson í bronsverðlaun í svigi 16-17 ára á Skíðamóti Íslands sem haldið var eftir páska. Andri Gunnar varð ellefti í heildarkeppninni, 13,05 sekúndum á eftir Íslandsmeistaranum.

Steinn Jónsson, Jóhann Gísli Jónsson og Guðmundur Kristinn Þorsteinsson kepptu einnig í sviginu og luku báðum ferðum en unnu ekki til verðlauna.

Strákarnir fjórir kepptu einnig í stórsvigi. Andri Gunnar og Steinn heltust úr lestinni í fyrri ferð en Guðmundur og Jóhann Gísli luku báðum ferðum þótt þeir ynnu ekki til verðlauna.