Skip to main content

Austfirðingar í ungmennalandsliðsverkefnum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2021 10:57Uppfært 13. okt 2021 10:58

Íþróttafélagið Höttur á alls þrjá fulltrúa í úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands og U-16 ára landsliði kvenna í knattspyrnu. Þróttur á tvo fulltrúa í U-17 ára landsliðunum í blaki.


Úrvalshópur FRÍ er valinn eftir utanhússtímabilið og byggir á afrekum einstaklinganna í sumar.

Í honum eru þær Birna Jóna Sverrisdóttir og Björg Gunnlaugsdóttir. Birna Jóna, sem fædd er árið 2007, kastaði sleggju í sumar 41,98 metra. Björg, sem er ári eldri, hljóp 100 metra hlaup á 12,87 sekúndum og 200 metra á 27,25 sekúndum.

Björg slær ekki slöku við en hún er einnig valin í U-16 ára landslið kvenna í knattspyrnu. Með henni þar er Íris Ósk Ívarsdóttir. Hópurinn æfir í byrjun næstu viku.

Jakob Kristjánsson og Randíður Anna Vigfúsdóttir eru í U-17 ára landsliðunum í blaki sem tekur þátt í Norðurlandamóti í Danmörku í næstu viku.

Björg Gunnlaugsdóttir. Mynd: FRÍ