Áslaug Munda fékk hálftíma í lokaleiknum
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. júl 2022 10:37 • Uppfært 19. júl 2022 10:45
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir frá Egilsstöðum spilaði rúmlega 30 mínútur í síðasta leik Íslands á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Ísland er úr leik eftir 1-1 jafntefli gegn Frökkum.
Líkt og í öðrum leiknum gegn Ítölum kom Áslaug Munda inn fyrir Hallberu Gísladóttir í stöðu vinstri bakvarðar. Að þessu kom hún inn á á 60. mínútu. Eftir leikinn tilkynnti Hallbera að hún hefði ákveðið að hætta með landsliðinu.
Ísland lenti undir strax á fyrstu mínútu leiksins. Jöfnunarmarkið kom eftir að leikurinn var flautaður að, myndbandsdómari benti á mögulegt brot eftir hornspyrnu í uppbótartíma og því var dæmt víti sem Dagný Brynjarsdóttir skoraði úr.
Ísland fékk því ekki frekari tækifæri til að skora. „Ég hefði viljað auka 30 sekúndur. Orkan var mikil á vellinum og það sást að okkur langaði áfram. Ég fann að okkur langaði að skora og komast áfram,“ sagði Áslaug Munda í viðtali við Fótbolti.net eftir leik.
Hún skýrði þar frá því að hún hefði ekki vitað úrslit hins leiksins í riðlinum, þar sem Belgía vann Ítalíu 1-0 sem þýddi að Ísland féll úr leik, fyrr en hún sá svipinn á þeim sem voru á bekknum er þau gengu inn á eftir leikslok.
„Þetta var lærdómur, reynsla, mjög stórt og bara gaman,“ svaraði Áslaug aðspurð um hvernig hún gerði mótið upp.
Telma Ívarsdóttir var ekki í leikmannahópi Íslands í gær en hún meiddist á æfingu fyrir annan leikinn. Þorsteinn Halldórsson þjálfaði liðið sem fyrr. Þau eru bæði alin upp í Neskaupstað.