Tröllin mæta á fimmtudag
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. ágú 2013 17:59 • Uppfært 14. ágú 2013 00:06
Aflraunakeppnin Austfjarðatöllið hefst á fimmtudag. Að venju fara keppendurnir víða um Austurland og þreyta þar ýmsar þrautir.
Keppnin hefst klukkan þrjú á fimmtudag við safnahúsið á hafnarsvæðinu á Höfn en um kvöldmat verða tröllin mætt á Breiðdalsvík við Hótel Bláfell.
Ferðalögin verða löng því á föstudag verður keppt við Kaupvang á Vopnafirði klukkan 13:00 og síðan við Toppfisk á Bakkafirði klukkan 17:00.
Keppninni lýkur á laugardag. Fyrri þraut dagsins verður við Sómastaði í Reyðarfirði klukkan 11:30 en sú síðasta við Herðubreið á Seyðisfirði klukkan 15:30.
Hafþór Júlíus Björnsson sigraði í keppninni í fyrra og setti þá met þegar hann vann allar greinarnar tíu.