Fanney Kristins: Alveg til að í að spila á miðjunni ef ég held áfram að skora
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. maí 2013 01:03 • Uppfært 25. maí 2013 17:39
Fanney Þórunn Kristinsdóttir var hetja Hattar í 0-3 sigri á Fjarðabyggð á Norðfjarðarvelli í fyrstu deild kvenna í gærkvöldi en hún skoraði öll þrjú mörkin. Hún lék framar á vellinum en hún er vön og segist fyllilega tilbúin að gera það áfram miðað við þessa byrjun.
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég skora þrjú mörk í alvöru leik þannig að mér fannst þetta mjög skemmtilegur leikur,“ sagði Fanney í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.
Fanney lék áður með Keflavík og þá fyrst og fremst sem miðvörður. Í kvöld var hún færð fram á miðjuna og það skilaði sér í mörkunum.
„Ég er alveg til í að spila sem miðvörður en ég er líka til í að halda mig á miðjunni fyrst ég byrja svona vel þar.“
Hún var ánægð með leik Hattarliðsins sem styrkti sig í vikunni með tveimur Bandaríkjamönnum, markverðinum Shelby Tomasello og vængmanninum Katie Goetzmann.
„Mér fannst við spila mjög vel saman. Bandarísku stelpurnar komu á miðvikudaginn og smellpassa inn í liðið.“