Skip to main content

Íþróttir helgarinnar: Þróttur í bikarúrslitum í blaki, Höttur getur farið upp og Íslandsmeistarar austur

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. mar 2015 11:33Uppfært 06. mar 2015 11:34

blak throttur hk bikar 0286 webLið Þróttar spila um helgina í úrslitakeppni bikarkeppninnar í blaki sem fram fer í Laugardalshöll. Höttur tekur á móti FSu í hreinum úrslitaleik um sæti í úrvalsdeild að ári og Íslandsmeistarar Stjörnunnar í knattspyrnu karla heimsækja Fjarðabyggð í Lengjubikarnum.


„Við ætlum að leggja allt í þetta og hafa rosalega gaman af því að spila við flottar aðstæður í höllinni," segir Matthías Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Þróttar í blaki.

Karlaliðið ríður á vaðið klukkan 14:00 á morgun þegar það mætir KA í undanúrslitum en kvennaliðið spilar við Aftureldingu klukkan 16:00. Úrslitaleikirnir verða á sunnudag.

Í fyrstu deild karla í körfuknattleik tekur Höttur á móti FSu í nánast hreinum úrslitaleik um hvort liðið fer beint upp í úrvalsdeild klukkan 18:30.

Höttur er með sex stiga forskot en FSu á leik til góða. „Áhorfendur mega búast við hörku körfuboltaleik. Það er mikið undir og það skiptir allt máli í kvöld," segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Hann segir alla leikmenn Hattar tilbúna í leikinn. „Það eru allir með í kvöld, menn gleyma öllum eymslum í svona leikjum. Þetta verður svo skemmtilegt."

Íslandsmeistarar Stjörnunnar í knattspyrnu karla heimsækja Fjarðabyggð í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 14:00 á laugardag í A-deild Lengjubikarsins.

Strax í kjölfarið eða klukkan 16:00 mætast Höttur og Leiknir þar í B-deild.