Íþróttir helgarinnar: Allt að verða klárt fyrir Ístölt Austurlands
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. feb 2015 12:55 • Uppfært 20. feb 2015 12:56
Sterkustu knapar Austurlands eru skráðir til leiks í Ístöltmóti hestamannafélagsins Freyfaxa sem fram fer á Móavatni við Tjarnarland á morgun. Kvennalið Þróttar í blaki leikur lykilleiki við Þrótt Reykjavík um helgina.
„Ísinn var mjög góður í gær að sögn staðarhaldara. Það hefur aðeins snjóað ofan á ísinn en við sköfum það af," segir Bjarki Þorvaldur Sigurbjartsson, formaður Freyfaxa.
Opið er fyrir skráningar til klukkan fjögur í dag en í morgun voru þær orðnar um sextíu talsins og flestir af sterkustu knöpum Austurlands komnir á blað.
Veðurspáin fyrir morgundaginn er ágæt, bjart en fremur kalt þannig að mikilvægt verður að áhorfendur klæði sig vel en búist er við að þeir verði yfir 100 talsins. Keppni hefst klukkan 10:20 og stendur fram undir myrkur.
Kvennalið Þróttar í blaki leikur tvo afar mikilvæga leiki við Þrótt Reykjavík í höfuðborginni í kvöld og á morgun.
Þróttur Neskaupstað er í fjórða sæti deildarinnar með 13 stig en Þróttur Reykjavík í því fimmta með tíu stig. Fjórða sætið veitir þátttökurétt í úrslitakeppni mótsins í vor.
Þrjú stig fást fyrir 3-0 eða 3-1 sigur, tvö stig fyrir að vinna leik í oddahrinu en eitt fyrir að tapa í slíkum leik.
Í Lengjubikarnum í knattspyrnu heimsækir Fjarðabyggð Hauka á sunnudag.