Skip to main content

Íþróttir helgarinnar: Höttur heldur átta stiga forskoti

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. feb 2015 16:10Uppfært 02. feb 2015 16:13

karfa hottur breidablik jan15 0020 webHöttur heldur átta stiga forskoti á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik eftir sigur á Skagamönnum í gær. Karlalið Þróttar vann Aftureldingu á föstudagskvöld og Fljótsdalshérað komst örugglega áfram í Útsvari.


Hattarmenn höfðu nokkuð örugg tök á leiknum gegn ÍA á Akranesi í gærdag. Það var rétt í byrjun leiks sem heimamenn börðust um en gestirnir voru yfir eftir fyrsta fjórðung 14-19.

Þeir voru síðan með öll völd í öðrum leikhluta og yfir 30-47 í hálfleik. Sá munur hélst út þriðja leikhluta, að honum loknum var staðan 49-64 og Höttur vann að lokum 73-83.

Tobin Carberry var sem fyrr stigahæstur Hattarmanna með 33 stig og hirti 17 fráköst. Viðar Örn Hafsteinsson skoraði 16 stig og Hreinn Gunnar Birgisson 15.

Höttur er með 8 stiga forskot á FSu sem á tvo leiki til góða.

Karlalið Þróttar spilaði tvo leiki syðra um helgina. Sá fyrri var gegn Aftureldingu á föstudagskvöld og þann leik vann Þróttur 0-3 eða í hrinum 19-25, 18-25 og 22-25.

Liðið spilaði gegn toppliði HK á laugardag og tapaði 3-1, í hrinum 25-22, 25-17, 22-25 og 25-11.

Eftir leiki helgarinnar er Þróttur í þriðja sæti með 18 stig, stigi minna en Stjarnan í öðru sæti og fimm stigum frá KA í fjórða sæti. Bæði Stjarnan og KA eiga hins vegar leiki inni á Þrótt.

Fljótsdalshérað er komið áfram í spurningakeppninni Útsvari eftir 93-53 sigur á Árborg á föstudagskvöld. Fljótsdalshérað var undir eftir bjölluspurningar en byggði upp forustu með frábærum leik og að ná valflokkaspurningum af Árborg.