Skip to main content

Blak: Systur spiluðu í liði Þróttar

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. des 2014 14:10Uppfært 03. des 2014 10:13

heida elisabet helena kristin blak nov14 web2Systurnar Helena Kristín og Heiða Elísabet Gunnarsdætur spiluðu í fyrsta sinn saman fyrir meistaraflokk Þróttar í blaki um helgina þegar Norðfjarðarliðið vann Þrótt úr Reykjavík og náði í sín fyrstu stig í vetur.


Helena Kristín hefur leikið með LA Tech háskólanum í Texas í Bandaríkjunum en er stödd hérlendis í vetrarfríi og hljóp í skarðið vegna veikinda í liðið Norðfjarðarliðsins.

„Það var ótrúlega gaman að fá að vera með um helgina þótt blakið hér sé mjög ólíkt blakinu úti," sagði Helena Kristín í samtali við Austurfrétt.

Heiða Elísabet er átta árum yngri og á sínu fyrsta ári með meistaraflokki. „Ég byrjaði einmitt líka í 9. bekk," segir stóra systir.

„Það var mjög gaman að fá að spila með henni og ég hlakka rosalega mikið til að sjá hana vaxa á vellinum."

Liðin mættust tvisvar. Norðfjarðarliðið vann 3-0 á föstudag (25-23, 25-18 og 25-16) og 3-1 (15-25, 25-12, 25-16 og 25-11) á laugardag. María Rún Karlsdóttir skoraði flest stig fyrir Þrótt Neskaupstað í báðum leikjum en Sunna Þrastardóttir fyrir Þrótt Reykjavík.

Þar með vann liðið sína fyrstu leiki í Íslandsmótinu í vetur. „Liðið er ungt og efnilegt og ég held að þær geti komið á óvart í vetur. Þær hafa tekið miklum framförum síðan í byrjun tímabils og eru enn á uppleið. Mér fannst þær spila vel um helgina en veit að þær eiga mikið meira inni," sagði Helena.

Mynd: Blakdeild Þróttar