Fyrstu liðin í hjólreiðakeppni Wow farin hjá: Ætlum heim í hádegismat
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. jún 2014 15:43 • Uppfært 25. jún 2014 16:03
Hjólreiðamenn Hleðsluliðsins og Workforce A voru fyrstir í Wow Cyclothon hjólreiðakeppninni til að hjóla í gegnum Egilsstaði tæpum sólarhring eftir að þeir voru ræstir af stað úr Reykjavík.
Liðin tvö þutu í gegnum Egilsstaði klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú í dag. Liðin hjóla viðstöðulaust áfram en keppnin var ræst af stað úr Reykjavík klukkan 19:00 í gær.
Liðin samanstanda af fjórum keppendum sem hjóla og tveimur aðstoðarmönnum sem keyra bílana. Ekkert er stoppað til að hvílast eða borða í ferðinni heldur en haldið stanslaust áfram og skipt um menn undir stýri eða á hjólunum.
Liðsmenn Workforce A sögðust stefna á að komast til Reykjavíkur fyrir hádegi á morgun. „Við þurfum að vera komnir heim í hádegismat. Við eigum pantað í steik og bernaise."
Safnað er áheitum sem renna til bæklunarskurðdeildar Landsspítalans. Alls taka 63 lið eða einstaklingar þátt í ár.
Liðin komu til Egilsstaða eftir þjóðvegi 1 úr norðurátt og halda síðan inn Skriðdal og yfir Öxi niður í Berufjörð þar sem kom er aftur inn á Hringveginn.