Ólympíufari á meðal keppanda á Strandamanninum sterka
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. maí 2014 09:48 • Uppfært 30. maí 2014 10:02
Óðinn Björn Þorsteinsson, kúluvarpari, er meðal keppenda á Strandamanninum sterka, nýju frjálsíþróttamóti sem haldið verður á Vilhjálmsvelli um helgina.
Óðinn Björn er einn af fjórum Íslendingum sem varpað hafa kúlu yfir tuttugu metra en hann keppt á Ólympíuleikunum í Lundúnum fyrir tveimur árum.
Einn af hinum fjórum er hins vegar mótshaldarinn Hreinn Halldórsson sem var þekktur sem Strandamaðurinn sterki meðan hann keppti. Hreinn stendur fyrri mótinu í samvinnu við UÍA en hann stefnir á að byggja upp frjálsíþróttamót á Egilsstöðum með þekktum keppendum í framtíðinni.
Af öðrum þekktum kösturum sem mæta til leiks um helgina er Guðmundur Sverrisson sem á yfir 80 metra í spjótkasti. Þjálfari hans er Austfirðingurinn Einar Vilhjálmsson sem á Íslandsmetið í greininni, 86,80 metra frá árinu 1992.
Á mótinu verður að auki keppt í kringlukasti, 200 og 400 metra hlaupi, langstökki og þrístökki. Mótið hefst klukkan 14:00 á laugardag, en ekki 16:00 eins og missagt var í Austurglugganum. Því verður framhaldið klukkan 13:00 á sunnudag.