Skip to main content

Blak: Hlökkum til að spila fyrir fullu húsi í miklum látum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. apr 2014 10:17Uppfært 11. apr 2014 10:19

blak throttur hk meistarar 06042013 0001 webÞróttur og Afturelding mætast öðru sinni í baráttu sinni um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í Neskaupstað í kvöld. Þróttur vann fyrri leikinn í Mosfellsbæ á þriðjudagskvöld í oddahrinu. Þjálfari Þróttar segir að það skipti engu máli nú.


„Við græðum ekkert á þeim sigri nema smá búst fyrir sálina og sjálfstraustið. Staðan er núll-núll og lið Aftureldingar mun koma brjálað til leiks eftir að hafa glatað niður fyrri leiknum," segir Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar.

Þróttur vann magnaðan sigur í fyrri leiknum 2-3 eftir að hafa tapað fyrstu tveimur hrinunum. Liðin sýndu oft á tíðum frábær varnartilþrif og sóknirnar voru langar en Matthías sagði fyrir leikinn að Þróttur yrði að hafa þrek og þor til að leggja deildarmeistarana.

Síðustu dagar hafa farið í æfingar og undirbúning fyrir leikinn í kvöld. „Við þurfum að taka meiri sénsa í uppgjöfum og bæta móttökuna enn frekar. Þetta snýst alltaf um fínstillingu."

Þróttarliðið hefur yfirleitt verið sterkt á heimavelli, sérstaklega í úrslitakeppninni þegar Norðfirðingar fylla íþróttahúsið.

„Við hlökkum til að spila heima fyrir fullu húsi í miklum látum. Það vinnst samt ekkert af sjálfu sér þótt menn séu á heimavelli. Það þarf að vinna erfiðisvinnuna og ég hef fulla trú á að stelpurnar geri það."

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki hampar Íslandsmeistaratitlinum en Þróttur er ríkjandi meistari. Þriðji leikurinn verður í Mosfellsbæ á mánudag. Þurfi fleiri leiki til verða þeir eftir páska.