Skip to main content

Fyrri keppnisgrein Ernu flýtt til morgundagsins

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. mar 2014 18:26Lorem ipsum dolor sit amet.

erna fridriksAustfirska skíðakonan Erna Friðriksdóttir mun hefja leik fyrr en áætlað var á vetrarólympímóti fatlaðra sem fram fer í Sotsjí í Rússlandi. Veðurfarið er að setja töluvert strik í reikninginn hjá mótshöldurum.


Fram kemur á heimasíðu Íþróttasambands fatlaðra að töluverð rigning og þoka séu núna á keppnissvæðunum í Sotsjí og af þeim sökum hafi verið ákveðið að flýta svigkeppni kvenna.

Upphaflega átti Erna að keppa í svigi á föstudaginn næstkomandi en sem fyrr segir hefur keppnin í svigi kvenna verið færð fram til morgundagsins, 12. mars. 

Keppendur hefja því leik kl. 9 að morgni að staðartíma, en það er kl. 5 árdegis að íslenskum tíma. Svig sjónskertra kvenna hefst kl. 9, svig standandi kvenna kl. 9:15 og svig sitjandi kvenna kl. 9:40 (5:40 hér heima) en Erna keppir í sitjandi flokki.

Engar aðrar breytingar hafa verið gerðar á keppnisdagskrá íslensku keppandanna og því mun Erna að óbreyttu keppa í stórsvigi sunnudaginn 16. mars.

Auk Ernu keppir Jóhann Þór Hólmgrímsson einnig á leikunum fyrir Íslands hönd.