Skip to main content

Körfubolti: Nýr Kani til Hattar

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. jan 2014 14:28Uppfært 08. jan 2014 14:44

gerald robinson hottur karfa 0009 webKörfuknattleikslið Hattar hefur fengið til sín nýjan erlendan leikmann að nafni Gerald Robinson. Sá kemur í stað Frisco Sandidge en samningi við hann var sagt upp í jólafríinu. Keppni í fyrstu deild karla í körfuknattleik hefst á ný eftir jólafrí á föstudag þegar topplið Tindastóls kemur í heimsókn.


„Við töldum okkur þurfa sterkari mann til að fara alla leið. Einstakling með reynslu og leiðtogahæfileika," segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Gerald er 29 ára gamall og spilaði áður með Haukum leiktíðina 2010-11 en liðið komst það tímabil í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar. Hann skoraði þá rúm 20 stig að meðaltali leik og tók tæp fjórtán fráköst.

„Gerald er sterkur í teignum og fín skytta," segir Viðar Örn um styrkleika nýja miðherjans sem lék síðast í Englandi.

Höttur tekur á móti Tindastóli þegar keppni í fyrstu deild hefst á ný eftir jólafrí klukkan 20:00 á föstudagskvöld. Sauðkrækingar eru efstir í deildinni og ósigraðir eftir átta leiki. Höttur er í 3. – 5. sæti með fimm sigra í átta leikjum.

Liðin í 2. – 5. sæti í vor leika um laust sæti í úrvalsdeild að ári en efsta liðið fer beint upp.

Útlit er fyrir að Sigmar Hákonarson leiki ekki með Hattarliðinu næstu vikurnar en hann meiddist illa á fæti á æfingu í fyrrakvöld.