Vont veður er víða á Austurlandi þessa stundina og ófært um helstu
fjallvegi. Verst er veðrið sunnan til í fjórðungnum. Ekki er gert ráð
fyrir að veðrið lagist fyrr en í kvöld. Ekki hefur verið flogið til
Egilsstaða í morgun.
Ágústa Þorkelsdóttir, bóndi á Refsstað í Vopnafirði, var í dag sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu dreifbýlis og
heimabyggðar. Forseti Íslands sæmdi hana og ellefu aðra orðunni við
athöfn á Bessastöðum í dag.
Fyrir jól var hafist handa við að reisa nýja gistiálmu við Hótel
Hallormsstað. Nýju álman verður tæpir 1000 fermetrar á þremur hæðum með
28 herbergjum. Reiknað er með að nýja álmann verði tekin í notkun 1. júní. Hótelið ræður þá yfir 83 herbergjum á sumrin en 59 á veturna.
Ríflega þrjátíu stiga hitamunur á innan við viku er mesta hitasveifla
sem mælst hefur á Egilsstöðum á þessum ársttíma. Eftir að allt fór á
kafi í snjó seinustu dagana fyrir jól er nú næstum allur snjór horfinn
eftir asahláku á jóladag og annan dag jóla.
Atvinnuleysi á Austurlandi hefur aukist um ein 20% á rúmu ári. Verst er
staðan meðal iðnaðarmanna. Hlutfall atvinnulausra á svæðinu er samt
lægra en gengur og gerist á landinu.
Síldarvinnslan stendur á morgun fyrir opnum fundi um sjávarútvegsmál í
Nesskóla. Meðal fyrirlesara er Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði
við Háskóla Íslands.
Gert er ráð fyrir ríflega sextíu milljóna króna afgangi hjá
Vopnafjarðarhreppi í fjárhagsáætlun ársins. Sveitarfélagið ætlar að
halda að sér höndum í fjárfestingum og framkvæmdum.
Veðurfræðingar spá því að vel muni viðra til flugeldaskota á
Austfjörðum. Þótt hvasst verði fyrri partinn á morgun eigi að lægja með
kvöldinu og vera léttskýjað yfir stærstum hluta landsfjórðungsins.
Bændur á Stórhóli í Álftafirði fluttu um 150 kindur suður til
Hornafjarðar áður en til vörslusviptingar kom fyrir jól. Matvælastofnun
hafði óskað eftir því við sýslumanninn að á annað hundrað fjár yrði
tekið úr vörslu ábúenda þar sem ekki væri pláss fyrir það í húsunum.
Talsverður erill var hjá lögreglunni á Egilsstöðum seinustu nótt vegna
slagsmála við dansleik þar. Björgunarsveitir voru kallaðar út til föstum
ferðalöngum á heiðum um jólin. Talsverður erill var einnig hjá lögreglunni á Eskifirði seinustu nótt.