Ríflega 20 austfirsk fyrirtæki tóku á móti viðurkenningum frá Creditinfo í gær sem framúrskarandi fyrirtæki ársins 2014. Matið byggir á ýmsum þáttum í rekstri fyrirtækjanna.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum í gær að hætta skólahaldi á Hallormsstað. Unnið verður að nýjum samningi um samstarf við Fljótsdalshrepp um samstarf í skólamálum.
Eldgosið í Holuhrauni gæti staðið í meira en ár í viðbót. Sérfræðingar fylgjast nú betur með uppsöfnun gosefna í snjó í nágrenni eldstöðvanna sem haft gætu áhrif á umhverfið þegar snjóa leysir í vor.
Fljótsdalshérað, AFL starfsgreinafélag, Austurbrú og AN Lausnir hafa gert samkomulag um frumkvöðlasetrið Hugvang á Egilsstöðum. Framkvæmdastjóri AN Lausna, sem hýsa setrið, segir mikla eftirspurn eftir stuðningi með fólk með hugmyndir.
Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Gróðrarstöðvarinnar Barra ehf., birti fyrir skemmstu myndband á Facebook-síðu sinni og greindi frá því að ódýrt vinnuafl hefði bæst í starfsmannaflóru fyrirtækisins. Þrjár mýs höfðu komið sér vel fyrir í vinnusalnum og söfnuðu fræjum eins og enginn væri morgundagurinn.
Dýrasta árskortið í sund er á Fljótsdalshéraði og það þriðja dýrasta í Fjarðabyggð. Í Fjarðabyggð er einnig að finna dýrustu stöku stundmiðana fyrir fullorðna.
Tveir almennir upplýsingafundir verða haldnir í Fjarðabyggð í dag um jarðhræringarnar í Bárðabungu og eldgosið í Holuhrauni í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, en Austurland er það landsvæði sem hvað oftast hefur þurft að glíma við SO2 gasmengunina frá Holuhrauni.
Dagur leikskólans er í dag og er hann haldinn hátíðlegur um allt land. Þetta er í áttunda skipti sem dagurinn er haldinn en 6. febrúar er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar úr hópi leikskólakennara fyrstu samtök sín.
Umfangsmikilrannsókn á svefnvenjum Íslendinga og tengslum við heilsufar og lífsgæði er hafin. Bréf hafa verið send á tíu þúsund einstaklinga um allt land og leynast því þó nokkrir þátttakendur hér fyrir austan.
Kubbafabrikkan er nútímaleg og nýstárleg arkitektastofa sem opnaði í haust og er staðsett í Kaupmannahöfn í Danmörku og Seyðisfirði á Íslandi. Stofan leggur mikla áherslu á sjálfbæra og vistvæna hönnun og helsta markmið fabrikkunnar er að stuðla að grænni plánetu með tækni úr fremstu röð.
Guðrún Áslaug Jónsdóttir og Signý Ormarsdóttir hafa verið ráðnar sem yfirverkefnastjórar Austurbrúar. Þær voru báðar starfsmenn Austurbrúar fyrir en þessar ráðningar eru í samræmi við nýtt skipurit Austurbrúar sem samþykkt var á framhaldsársfundi stofnunarinnar í haust. Breytingarnar hafa ekki för með sér fjölgun starfsmanna hjá Austurbrú.